Á hverju ári tekur AFS á Íslandi á móti 25 -35 erlendum skiptinemum frá öllum heimsálfum og gefur um leið Íslendingum tækifæri til að flytja framandi menningu inn á heimili sitt hér á Íslandi með því að taka að sér ungmenni á aldrinum 15-19 ára í 5 eða 10 mánuði.


Erlendu nemarnir eiga það sammerkt að hafa áhuga á að koma til Íslands og að vilja kynnast íslenskri menningu og fjölskyldulífi. Þeir vilja lifa í sama umhverfi og við sömu aðstæður og íslenskir jafnaldrar þeirra. Skiptinemar búast því ekki við stanslausri skemmtidagskrá á Íslandi heldur vilja þeir fá að taka þátt í okkar daglega lífi. Þeir ganga í íslenska framhaldsskóla, hafa eigin áhugamál og eignast vini rétt eins og íslensk ungmenni.

Fósturfjölskyldur af öllum gerðum
Þið þurfið fyrst og fremst að vera hjartahlý, sveigjanleg og með áhuga á að opna heimili ykkar fyrir skiptinema og leyfa honum að taka þátt í lífi og starfi fjölskyldunnar.

Skiptinemar koma frá margs konar fjölskyldum og eru tilbúnir til þess að kynnast einhverju nýju. Þið þurfið ekki að vera kjarnafjölskylda, heimavinnandi, í stóru húsi, enskumælandi eða með heitan mat í öll mál.

Kostnaður
AFS sér um sjúkra- og slysakostnað og allan kostnað vegna skóla (skólagjöld, skólabækur og ferðir til og frá skóla), en skiptineminn sér sér sjálfur fyrir vasapeningum og fatnaði. Fósturfjölskyldan ber því engan beinan kostnað af því að taka að sér skiptinema, hún þarf aðeins að sjá um fæði og húsnæði fyrir einn fjölskyldumeðlim í viðbót.

Stuðningur AFS

Skiptineminn og fósturfjölskylda hans hafa trúnaðarmann AFS á sínu svæði en hann er gjarnan aðili sem hefur tekið þátt í starfi AFS, annaðhvort sem skiptinemi eða sem meðlimur fósturfjölskyldu. Trúnaðarmaðurinn fylgist með því hvernig gengur og er fjölskyldunni og nemanum til halds og trausts ef eitthvað sérstakt kemur upp á. Starfsfólk á skrifstofu AFS í Reykjavík er einnig til aðstoðar.

Skiptinemarnir fara á þrjú námskeið og eina menningarhelgi á vegum AFS á Íslandi meðan á dvöl þeirra stendur. Þar fá þeir upplýsingar og vinna verkefni sem eiga að hjálpa þeim að aðlagast íslenskri menningu og gera dvölina sem besta

    Úr Fréttatímanum helgina 20. - 22. janúar 2012.
Til að lesa allt viðtalið ,,Fór út sem skiptinemi og lenti í byltingu"  - SMELLTU HÉR