Það að hýsa skiptinema getur haft miklar breytingar í för með sér fyrir alla aðila, skiptinemann sjálfan og fjölskylduna sem hýsir hann. Allir aðilar læra nýja siði og tungumál. Skiptinemar á okkar vegum leggja sig iðulega fram við að læra tungumálið þótt árangurinn sé misjafn.

Margir skiptinemar eru enn í sambandi við fósturfjölskyldu sína og dæmi eru um að jafnvel barnabörn haldi sambandi við afkomendur fósturforeldranna eftir að afar þeirra eða ömmur fóru út á vegum AFS.

Til þess að verða fósturforeldrar þarf fjölskyldan að hafa áhuga á að hýsa skiptinema og eiga hjartarými til þess að veita stuðning fyrstu vikurnar á meðan skiptineminn er að aðlagast breyttu landslagi, aðstæðum og tungumáli.

Það er spennandi en jafnframt ögrandi að fara út sem skiptinemi til lands þar sem maður skilur ekki orð, húsin eru öðruvísi og jafnvel göturnar og bílarnir. Krakkarnir eru mishræddir við framandi aðstæður enda oft kvíðvænlegt að skella sér út í hið ókunna umhverfi í fyrsta skipti.

Að verða fósturforeldri felur fyrst og fremst í sér þær skyldur að veita stuðning, húsaskjól og fæði. Ekki er gerð krafa um að skiptinemar fái sérherbergi heldur eigið rúm til að sofa í.

Margar fjölskyldur á Íslandi eru tregar að taka að sér skiptinema þar sem þær vilja fara til útlanda eða skreppa í sumarbústað þegar þeim hentar. AFS kemur til móts við það og hefur net sjálfboðaliða sem geta hlaupið undir bagga ef skiptineminn þarf „pössun“.

Skiptinemarnir fá vasapening frá foreldrum sínum heima til þess að fara í bíó eða á böll og þess háttar. AFS sér um að koma þeim í skóla og greiðir kostnað vegna námsbóka.

Allir skiptinemar og fósturfjölskyldur fá úthlutað tengilið (trúnaðarmanni) sem gegnir því hlutverki að vera báðum aðilum innan handar. Tengiliðurinn á að hafa samband við skiptinemann a.m.k. einu sinni í mánuði og oftar ef þess er þörf. Hann hjálpar oft til við hagnýta hluti eins og að fylgja skiptinemanum í læknisskoðun eða að „passa“ hann ef fósturfjölskyldan fer í frí.

Þegar skiptinemi hittir fósturfjölskyldu sína í fyrsta skipti myndast oft og tíðum spennuþrungið andrúmsloft og margir eiga erfitt með að leyna tilfinningum sínum. Krakkarnir upplifa mikið þakklæti þegar fósturfjölskylda gefur sig fram sem vill hýsa viðkomandi.