Hvers konar ungling fáum við? Getum við valið?

Þjálfað starfsfólk AFS aðstoðar við val á nema, oft er það nemi sem hefur áhuga á svipuðum hlutum og þið og getur aðlagast ykkar lífsmáta. AFS starfið snýst um einstaklinga frekar en þjóðerni og því er manneskjan mikilvægasti mælikvarðinn. Þið getið merkt við hvort þið óskið eftir að hýsa pilt eða stúlku. AFS mun senda ykkur í flestum tilfellum nokkrar umsóknir skiptinema til athugunar; flestir skiptinemar eru á aldrinum 16 til 18 ára, og nemum og fjölskyldum er fyrst of fremst raðað saman á grundvelli áhugamála, persónuleika og staðsetningar. Þegar þið hafið samþykkt að taka viðkomandi skiptinema inn á heimilið ykkar, verða nemanum sendar upplýsingar um ykkar fjölskyldu.

Er okkur greitt fyrir að taka skiptinema inn á heimilið?

Fjölskyldum er ekki greitt fyrir að taka að sér AFS skiptinema. En oftast nær finnst fósturfjölskyldum það vera næg greiðsla að hafa notið samvista við skiptinemann og að hafa kynnst þannig nýjum einstaklingi og jafnvel nýrri þjóð þann tíma sem unglingurinn dvaldi hjá þeim.

Hvernig mun þetta breyta fjölskyldulífinu?

Að hýsa skiptinema varðar alla í fjölskyldunni. Nýr meðlimur í fjölskyldunni ber með sér ný viðhorf til fjölmargra þátta í hinu daglega lífi. Vinir ykkar og ættingjar verða einnig fyrir áhrifum af fjölgun á heimili ykkar. Munið, að margt af því sem þið takið sem sjálfsögðum hlut kann að vera nýtt og framandi fyrir skiptinemann, og þannig munið þið sífellt kynnast fleiri og fjölbreyttari viðhorfum í gegnum þennan nýja fjölskyldumeðlim:

Hvar mun AFS skiptineminn fara í skóla?

Ef unglingar eru á heimilinu, væri ef til vill heppilegast að skiptineminn færi í sama skóla. Ef ekki, þá mun AFS sjá um að koma skiptinemanum inn í annan framhaldsskóla í nágrenninu.

Hvað gerist í skólaleyfum?
Þar sem skiptineminn á að taka þátt í daglegu lífi fjölskyldunnar, þá er þetta að miklu leyti undir ykkur komið; dvölin í heild felst fyrst og fremst í sameiginlegri reynslu fjölskyldunnar og skiptinemans.

En ef aðstæður fjölskyldunnar breytast meðan á dvöl skiptinemans stendur?

Ef aðstæður breytast, reyna flestar fjölskyldur að fá skiptinemann líkt og aðra fjölskyldumeðlimi til að venjast hinum nýju aðstæðum. Ef fjölskyldan á hins vegar óhægt um vik, mun AFS koma nemanum fyrir hjá annarri fjölskyldu, helst þannig að þið gætuð eftir sem áður haldið góðu sambandi.

Hver ber ábyrgð á skiptinemanum?

Foreldrar skiptinemans eru áfram lögráðmenn unglingsins, meðan á dvölinni stendur. AFS ber hins vegar ábyrgð á öryggi og velferð skiptinemanna meðan þeir dvelja hér á okkar vegum. Sem fósturforeldrar takið þið daglegan þátt í þeirri ábyrgð með því að annast um skiptinemann, en aldrei er langt að sækja til AFS sjálfboðaliða, og í neyðartilvikum er hægt að hafa samband við starfsfólk AFS. Þó að þið kunnið að finna til mikillar ábyrgðar og getið verið þvinguð af því í upphafi, þá verður þetta smám saman auðveldara eftir því sem skiptineminn verður meira sem venjulegur unglingur á heimilinu.

Hvað gerist ef okkur og skiptinemanum semur nú ekki?

Árlega dvelja um 30 AFS skiptinemar á íslenskum heimilum. Stöku sinnum kemur í ljós að fjölskylda og skiptinemi geta ekki aðlagast nýjum aðstæðum sem skyldi. Reynt er að vinna úr slíkum vandamálum með aðstoð fjölskyldunnar, skiptinemans og fólks á vegum AFS. Ef það reynist ekki mögulegt, sér AFS um að flytja skiptinemann til annarrar fjölskyldu. Oftast gerist þetta vegna ófyrirsjáanlegra örðugleika í samskiptum einstaklinga, eða vegna þess að ónógar upplýsingar lágu fyrir um annað hvort skiptinemann eða fjölskylduna. Því er mjög mikilvægt að þær upplýsingar sem koma fram á umsóknarblöðum séu eins góðar og mögulegt er.