Íslenskir skiptinemar til múslimalanda í Asíu hljóta styrk

Íslensk ungmenni á aldrinum 15-18 ára sem vilja kynnast menningu í ríkjum þar sem hluti þjóðarinnar eru múslímar, fá á árinu 2014 hálfrar milljóna króna styrk.

Löndin sem standa til boða eru Asíuríkin Malasía, Indónesía og Tæland. Það eru fræðslusamtökin AFS á Islandi sem bjóða upp á ársdvöl hjá fjölskyldum í þessum löndum og vill stjórn félagsins með styrkveitingunni stuðla að fræðslu íslenskra ungmenna um Íslamstrú.

AFS samtökin eru alþjóðleg sjálfboðasamtök með það að meginmarkmiði að auka viðsýni og skilning á milli ólíkra menningarheima. Styrkurinn rennur upp í þátttökukostnað þeirra nema sem valdir verða.

Ragnar Þorvarðarson, formaður AFS: „Í allri þeirri umræðu sem farið hefur fram undanfarið um menningu og trúarsiði múslima þá vildum við koma til móts við ungt fólk sem er er áhugasamt um nýta ár í lífi sínu til að kynna sér þessi lönd. Við teljum að aukin fjölbreytni í okkar samfélagi skapi þörf fyrir alþjóðlega þekkingu og reynslu. Umræða um málefni sem þessi byggist því miður stundum á reynsluleysi og röngum upplýsingum og finnst okkur því kjörið að reyna að bæta úr því“.

Skoða má nánari upplýsingar um þessi lönd HÉR - með því að smella á nafn þeirra.