Ragnar í stjórn alþjóðasamtaka AFS í New York

Ragnar Þorvarðarson, fyrrum formaður AFS á Íslandi, tók nýverið sæti í stjórn alþjóðasamtaka AFS Intercultural Programs í New York. Hann er annar Íslendingurinn til að sitja í stjórn samtakanna og er nú yngsti meðlimur stjórnarinnar, en meðal stjórnarmanna eru sjúkrabílstjórar AFS úr seinni heimsstyrjöldinni. Samtökin eiga rætur sínar að rekja aftur til 1915 þegar bandarískir sjúkrabílstjórar sinntu særðum hermönnum á vígvöllum fyrri heimsstyrjaldarinnar. Samtökin voru stofnuð í núverandi mynd árið 1946 og byrjuðu í framhaldinu að senda nema milli landa.

„Það er afar spennandi að fá tækifæri til að taka þátt í að leiða áfram þessi rúmlega 100 ára gömlu alþjóðlegu félagasamtök. Framundan eru spennandi verkefni, en meðal þeirra er stefnumótunarvinna í samstarfi við aðildarfélög. Markmið okkar að stuðla að friðsælli heimi í gegnum það mikla fræðslu- og sjálfboðaliðastarf sem við sinnum um allan heim. Það hefur hugsanlega aldrei verið brýnna en nú að auka skilning á milli menningarheima og samfélagshópa. Þar spilar AFS að mínu mati stórt hlutverk og ég er stoltur að fá tækifæri til að taka þátt í því starfi“, segir Ragnar.

Síðustu tvö ár hefur Ragnar setið í stjórn Evrópusamtaka AFS í Brussel, EFIL (European Federation for Intercultural Learning), en samtökin sinna ýmsum stuðningi við aðildarfélög, fræðslu til sjálfboðaliða og vinna að því að setja á laggirnar ný AFS félög víða í Austur-Evrópu. Á þeim vettvangi hefur hann m.a. verið leiðbeinandi á stjórnarháttanámskeiði EFIL fyrir félagasamtök sem haldið var í Póllandi. Hann starfar sem viðskiptafulltrúi og hefur síðasta áratuginn búið við nám og störf í Japan, Danmörku, Bretlandi, Bandaríkjunum og Íslandi.