Vegna umfjöllunar Stöðvar 2

Vegna umfjöllunar Stöðvar 2 um málefni skiptinema í Perú vill AFS á Íslandi taka fram að félagið hefur tekið gagnrýninni alvarlega og farið ítarlega yfir málið út frá upplýsingum meðal annars frá AFS í Perú sem og upplýsingum frá Margréti Vigdísi og móður hennar.

AFS á Íslandi átti í töluverðum samskiptum við viðkomandi aðila meðan á dvölinni stóð. Eftir að AFS á Íslandi fékk upplýsingar um ofbeldi sem Margrét varð fyrir var unnið mjög hratt að því að hún skipti um heimili, kæmist í öruggar aðstæður og fengi í kjölfarið stuðning og ráðgjöf. Málið var unnið í fullu samráði við Margréti og AFS í Perú. Henni bauðst einnig að koma heim án tafar.

AFS vinnur eftir alþjóðlegum viðbragðsáætlunum og í tilfelli Margrétar voru viðbrögð í samræmi við reglur settar af alþjóðaskrifstofu AFS í Bandaríkjunum. Er það einnig niðurstaða sérfræðings í áfalla- og neyðarstjórnun á alþjóðaskrifstofunni sem fylgdist með vinnslu málsins og hefur farið yfir málið í heild.

Að lokinni yfirferð málsins teljum við að AFS á Íslandi hafa stutt vel við Margréti Vigdísi og brugðist eins vel við og hægt var, auk þess sem farið var ítarlega eftir þeim verkferlum sem notast er við.

Okkur þykir afar miður að Margrét hafi lent í áföllum meðan á dvöl hennar í Perú stóð og hefur skrifstofa AFS á Íslandi viljað veita henni allan þann stuðning sem kostur er á. Þá hefur AFS á Íslandi lagt sig fram við að koma til móts við allar eðlilegar kröfur.