Um öryggi skiptinema AFS

Í framhaldi af umræðu undanfarinna daga þykir AFS á Íslandi rétt að koma eftirfarandi á framfæri um öryggi og velferð nema.

AFS á Íslandi eru rótgróin skiptinemasamtök og hafa frá stofnun árið 1957 sent um 9.000 skiptinema frá Íslandi. Í dag fara á hverju ári u.þ.b. 80 skiptinemar út á vegum AFS á Íslandi og samkvæmt mati nemenda að dvöl lokinni eru að jafnaði 90% þeirra ánægðir með dvölina. Því miður geta alltaf komið upp erfið og viðkvæm mál og þá skiptir miklu máli að AFS samtökin um heim allan bregðist hratt og rétt við.

Innviðir samtakanna miða að því að tryggja að skiptinemadvöl sé örugg og þroskandi upplifun. Þeir byggja á áratuga reynslu og samanstanda meðal annars af:

-Námskeiðum fyrir nema og foreldra fyrir brottför, meðan á dvöl stendur og eftir að dvöl lýkur.

-Undirbúningi og viðtölum við væntanlegar fósturfjölskyldur.

-Aðgengi að tengiliðum og fjölbreyttu neti sjálfboðaliða.

-Skrifstofum í dvalarlandi, sendingarlandi auk alþjóðaskrifstofu sem allar eru mannaðar þjálfuðu starfsfólki.

Samtökin taka öllu ofbeldi og áreiti mjög alvarlega og gera sitt allra besta til að standa þétt við bak skiptinema ef slík mál koma upp. Komi upp mál á borð við kynferðisbrot á heimili er unnið af heilum hug við að bregðast hratt við til að tryggja öryggi og velferð skiptinemans. Nemandanum er strax komið í öruggar aðstæður og er boðið upp á nauðsynlegan stuðning. Í því felst meðal annars:

-Neyðarsími í dvalarlandi og sendingarlandi sem er opinn allan sólarhringinn.

-Sálfræðiþjónusta fyrir nema og eftir aðstæðum aðstandendur eftir þörfum.

-Hægt er að fá dvöl hjá nýrri fósturfjölskyldu eða flýta heimkomu.

-Aðstandendum er í sumum tilvikum boðið að fara út til barna sinna.

-Félagsráðgjafi starfar á skrifstofu AFS á Íslandi. Erlendis eru einnig sérhæfðir starfsmenn sem sinna stuðningsmálum.

-Alþjóðaskrifstofa AFS er alltaf til ráðgjafar og aðstoðar í alvarlegum málum.

Skiptinemadvöl er í langflestum tilvikum afar þroskandi og jákvæð. Okkur hjá AFS er mjög umhugað um öryggi og vellíðan skiptinemanna okkar. Við tökum því alla gagnrýni til okkar og leggjum okkur ávallt fram við að læra af reynslunni.