Þarf ég að vera góður námsmaður til að eiga möguleika á að komast sem skiptinemi með AFS?

AFS á Íslandi gerir ekki kröfur um framúrskarandi námsárangur eða málakunnáttu. Einstök AFS lönd eru þó undir þrýstingi viðkomandi skólayfirvalda um að taka aðeins á móti nemum með námsárangur yfir meðallagi eða nema sem hafa grunnþekkingu á tungumálinu. Þeir sem geta sýnt fram á góða frammistöðu í skóla hér heima eiga því möguleika á fleiri löndum en aðrir.

Hvað er umsóknarferlið langt?
Frumumsóknina getur þú klárað á einni kvöldstund. Þar þarf að skrifa bréf til fósturfjölskyldunnar og gefa upp upplýsingar um þig. Þegar henni er lokið eru umsækjendur boðaðir í viðtal og fá sendan greiðsluseðil heim fyrir skráningagjaldi sem er 8000 krónur. Að því loknu opnast á framhaldsumsókn sem getur tekið 2-3 vikur að ljúka en þá þurfa umsækjendur að fara í læknisskoðun og skólinn þarf að fylla út pappíra svo dæmi séu tekin. Allt í allt getur ferlið tekið um það bil 4-6 vikur þó dæmi séu um að umsækjendur hafi lokið frum- og framhaldsumsókn á einni viku. 


Hjá hverjum búa skiptinemar?

Skiptinemar búa hjá fósturfjölskyldu sem starfsfólk og sjálfboðaliðar AFS sjá um að útvega. Fjölskyldan fær ekki greitt fyrir að taka skiptinema og tekur nema af áhuganum einum saman. Fjölskyldan sér um fæði og húsnæði fyrir skiptinemana.

Er öruggt að fara út í heim með AFS?

AFS tryggir öryggi skiptinema eins vel og kostur er. Starfsfólk AFS í öllum löndum er á öryggisvakt allan sólarhringinn, alla daga ársins auk þess sem það er í stöðugu sambandi við Alþjóðasamtök AFS í New York. Á löngum tíma hefur AFS byggt upp víðtækt kerfi þjálfaðra sjálfboðaliða sem sinna ýmsum störfum fyrir samtökin. Sjálfboðaliðar eru m.a. tengiliðir fyrir skiptinema. Hver nemi og fósturfjölskylda hans hafa slíkan tengilið sem er þeim innan handar til að dvölin heppnist sem best. Mikilvægast er þó að skiptinemar fari eftir ráðum og reglum fósturfjölskyldunnar til að dvöl þeirra verði sem best.

Hvernig er náminu háttað í skólanum í dvalarlandinu?

AFS skiptinemar taka sömu fög og þarlendir skólafélagar þeirra og þurfa jafnt og aðrir að standa skil á verkefnum, læra heima og taka próf. Í sumum tilvikum er jafnvel gerð krafa um að skiptinemar standist próf eins og aðrir nemendur skólans og mikilvægt er að skiptinemar uppfylli þær kröfur sem skólinn gerir til þeirra.

Er námið sem stundað er dvalarlandi metið þegar heim er komið?

Það er ekki sjálfgefið að skiptinemar tapi heilu ári í námi eftir dvöl erlendis. Möguleiki er á að taka stöðupróf í mörgum tungumálum eftir að heim er komið og fá þannig einingar metnar. Mat á öðru námi veltur á því hversu hart neminn leggur að sér í námi erlendis og hvaða reglur skólinn hans hér heima hefur. Það hefur færst í vöxt að nemar komi heim með vottorð og námslýsingar frá skólum erlendis og eykur það líkur á góðu námsmati hér heima. Námsráðgjafar í hverjum skóla geta gefið nánari upplýsingar um þessi atriði.

Mega foreldrar mínir, ættingjar eða vinir koma að heimsækja mig á meðan dvöl stendur?

AFS mælir ekki með því að foreldrar eða aðrir tengdir skiptinemanum heimsæki hann á meðan dvöld stendur. Sum lönd banna það algjörlega og biðja nema að skrifa undir samning þess efnis en önnur lönd leyfa heimsóknir við lok dvalar. Það er nauðsynlegt að huga tímanlega að þessu og vera í samvinnu við skrifstofu AFS á Íslandi.