Bosnía og Hersegóvína býður upp á blöndu af menningarheimum þar sem austrið og vestrið mætast í byggingarlist, matargerð, tungumálum og trúarbrögðum. Í Bosníu og Hersegóvínu gefst þér færi á að upplifa falleg og tignarleg fjöll, þar sem Vetrarólympíuleikarnir fóru fram árið 1984, skóga, fornfrægar virkisborgir, klaustur og moskur. Bosníumenn eru gjarnan mjög hispurslaust fólk sem lætur óhikað skoðanir sínar, óskir og gagnrýni í ljós í beinskeyttum rökræðum um dægurmálin hverju sinni.
Þegar bosnísk ungmenni eru ekki í skólanum eða að vinna heimavinnu hitta þau ættingja og vini, rölta um bæinn, fá sér kaffi eða ávaxtasafa á næsta kaffihúsi, skreppa í bíó, líta við í félagsmiðstöðvunum, fara á tónleika og svo framvegis. Ef þú hefur gaman af íþróttum ertu á réttum stað. Fótboltinn er vinsælasta íþróttin en á veturna geturðu nýtt þér frábær skíðasvæði og prófað þig áfram í brekkunum.