Í ágúst koma til landsins 35 erlendir skiptinemar til Íslands á vegum AFS. Nemarnir eru á aldrinum 15-18 ára, ganga í skóla út um allt land og dvelja hér í þrjá og tíu mánuði. Fósturfjölskyldur útvega nemunum fæði og húsnæði en annan kostnað greiðir neminn sjálfur, t.d. tómstundir og vasapening. AFS sér um að skrá nemann í skóla, greiðir skólagjöld og námsbækur og aðstoðar við aðlögun t.d. með námskeiðum.

Fósturfjölskyldur gera starf AFS mögulegt

Á hverju ári taka 10.000 fósturfjölskyldur, í 54 löndum þar sem AFS starfar, á móti skiptinemum.  AFS hefur áratuga reynslu af nemendaskiptum þar sem samtökin hafa starfað í rúmlega 50 ár í fjölmörgum löndum í heiminum og fleiri þúsund skiptinemar og fósturfjölskyldur hafa tekið þátt í starfsemi AFS.

Fólk sem hefur áhuga á fólki og löngun til þess að kynnast veröldinni á að grípa tækifærið og taka að sér skiptinema.

Allt sem þið þurfið er hjartarými, löngun til að læra eitthvað nýtt, kímnigáfu  og sveigjanleika. 

 Þeir sem hafa áhuga á nánari upplýsingum geta haft samband við skrifstofu AFS á Íslandi í síma : 552-5450 eða á [email protected]

 

Door

Belgíu (flæmska)

Door (fædd í apríl 2000)

Door er 17 ára strákur frá flæmskumælandi Belgíu. Hann er mjög náin foreldrum sínum og á góðan vinahóp sem þekkir hann vel. Vinir hans telja hann vera mjög duglegan og örlítið feimin. Door stundar badminton og fer út að hlaupa með vinum sínum. Hann segir sjálfur að hann sé ekki sérlega góður í badminton né hlaupi, en honum finnist báðar greinar mjög skemmtilegar og að það skipti mestu máli. Hann er líka virkur í ungmennasamtökum sem heita ‘Kazau’ þar sem hann er í allskonar leikjum með ungum krökkum, sjálfboðaliðum og fjölskyldum.

Door elskar að púsla og fara í bíó. Hann elskar líka tónlist og finnst gaman að syngja. Hann segir sjálfur að ef hann er ekki að syngja þá veit fjölskyldan hans að það er eitthvað að. Door er spenntur fyrir því að fá að læra nýtt tungumál, fá að kynnast nýrri menningu á Íslandi, og er líka mjög spenntur að fá að hitta nýju fjölskylduna sína.

Wakana

Japan

Wakana (fædd í maí 2002)

Wakana er 15 ára stelpa frá borginni Okawa-shi í Japan. Hún býr með foreldrum sýnum, yngri systur og tveim yngri bræðrum. Hún eyðir oft tíma með systkinum sínum og þau fara stundum í dýragarð, bíó eða á skauta saman.

Hún er mjög afslöppuð en dugleg og vingjarnleg týpa sem finnst gaman að taka þátt í nýjum hlutum. Til dæmis er hún dugleg að taka þátt í viðburðum í skólanum og finnst gaman að læra ný tungumál. Hún æfir skrautskrift sem hún nýtur mikils.

Wakana elskar að hlusta á tónlist og hefur sérstaklega gaman af Taylor Swift. Hún og vinir hennar fara oft saman út að borða og taka myndir saman.

Wakana hefur mikinn áhuga á skoða náttúruna og finnst afar gaman í útilegum. Hún hefur mikinn áhuga á því að læra íslensku og valdi Ísland vegna þess að henni langar að prófa vetraríþróttir og búa í landi með öðruvísi og fallegu landslagi.

Kirin

Bandaríkin

Kirin (fæddur í september 2001)

Kirin er 16 ára strákur frá San Diego í Bandaríkjunum, en þar býr hann með mömmu sinni og systur og eru þau öll mjög náin.

Þegar Kirin var beðinn um að lýsa sjálfum sér segist vera frekar feiminn fyrst um sinn en þegar hann kynnist fólki sé hann fljótur að opna sig.

Kirin er áberandi í félagsstarfi í skólanum, er frábær námsmaður og hefur sérstaklega áhuga á náttúrufræði og tungumálum. Hann er hann virkur í sínu samfélagi og sinnir ýmsu sjálfboðastarfi, svo sem að rækta mat fyrir þá sem minna mega sín og að endurbyggja landsvæði sem hafa orðið fyrir skaða.

Hann elskar náttúruna og líður alltaf betur á opnum svæðum en stórborgum. Hann hefur mikinn áhuga á garðrækt og er mikill fjallgöngumaður, en hann fer í langar göngur tvisvar sinnum í viku.

Kirin er mjög spenntur fyrir komunni til Íslands og hefur hann þegar byrjað að undirbúa komuna, en hann hefur nú lært íslensku í rúmt ár og er mjög spenntur að kynnast landi og menningu enn frekar.

Kirin er með ofnæmi fyrir köttum og er vegan.

Augustin

Frakkland

Augustin (fæddur í október 2002)

Augustin býr með foreldrum sínum og eldri systur í norðurhluta Frakklands nálægt landamærum Belgíu. Augustin finnst gaman að teikna, spila tölvuleiki og borðspil, m.a. hlutverkaleiki (role-play). Hann hefur spilað rugby í 9 ár sem og hann hefur nýlega uppgötvað klifur og stundar hann það tvisvar í viku. Auk þessa hefur einnig gaman að því að fara á skíði þó hann segist ekki vera neitt sérstaklega góður. Augustin nýtur þess að eyða tíma með vinum sínum, fjölskyldu og hundunum sínum tveimur.

Hann hefur sérstaklega gaman af fögum sem snúa að vísindum og tölvum. Hann er að taka próf sem kemur til með að auðvelda honum að gerast flugmaður (The Aeronautics Initiation Certificate, BIA). Hann er með útvarpsþátt í skólanum sínum um geimverur og fjallar meðal annars um verur sem koma fram í Star Wars, E.T, Superman og Paul.

Maxime

Frakkland

Maxime (fæddur í júlí 2001)

Maxime býr með fjölskyldu sinni og yngri systur í litlum bæ í útjaðri Parísar.

Maxime er jákvæður, rólegur drengur sem er trúr vinum sínum. Hann hefur mikinn áhuga á tónlist og virðist vera alæta á hana. Honum finnst gaman að teikna og les mikið, bæði teiknimyndasögur og bókmenntir. Hann er mjög hrifinn af Harry Potter, Hringadróttinssögu og Aftur til framtíðar (Back to the future) og elskar kvikmyndir.

Hann hefur áhuga á geimnum og virðist vera mjög áhugasamur um margt á milli himins og jarðar. Það ber þó að taka það fram að hann hefur engan áhuga á íþróttum og æfir engar íþróttir. Hann virðist vera mikill hugsuður, klár, afar ljúfur og fyndinn drengur.

Laurence

Belgíu (franska)

Laurence (fædd í október 2000)

Laurence kemur frá frönskumælandi hluta Belgíu. Hún er náin fjölskyldu sinn og á hún tvö yngri systkini sem eru 6 og 11 ára, sem hún eyðir töluverðum tíma með. Hún er opin, félagslynd, þolinmóð og góðhjörtuð.

Hennar helsta áhugamál er leiklist sem hún hefur æft í 7 ár og hefur hún áhuga á að leggja það fyrir sig í framtíðinni. Hún hefur einnig áhuga á tónlist og hefur hún lært á gítar í 2 ár. Hún er afar hænd að dýrum og á fjölskyldan nokkur dýr: ketti, hund, páfagauk, gæsir, hesta og svín.

Laurence hlakkar til að takast á við nýja menningu og tungumál og læra nýja siði og styrkja sjálfstæði sitt. Laurence er með vægt ofnæmi fyrir rykmaurum og með áreynslu asma.

Pun

Thailand

Pun (fæddur í nóvember 2000)

Pun verður 18 ára í nóvember og kemur frá Bangkok í Tælandi. Hann býr með stór-fjölskyldunni, foreldrum, eldri bróður, frænku og ömmu sinni.

Hann elskar ljósmyndun, leiklist, að lesa bækur, horfa á kvikmyndir, hlusta á tónlist, ferðast, synda og að elda. Hann er mjög náinn frænku sinni og er það ekki síst í gegnum eldamennskuna en samkvæmt honum er hún langbesti kokkurinn sem hann þekkir.

Hann er mjög félagslyndur og tekur þátt í mörgum áhugamálum í og eftir skóla. Hann er orkumikill og vinalegur og semur vel við aðra. Karn er forseti leiklistarklúbbsins í skólanum og þarf stundum að leysa árgeining á milli nema. Hann elskar að skrifa sögur og vill verða kvikmyndagerðarmaður og er uppáhalds leikstjórinn hans Tim Burton. Karn valdi Ísland því hann hefur mikinn áhuga á goðafræði og langar hann að læra íslensku þó hann hafi heyrt að hún geti verið erfið.

Fritzie

Sviss

Fritzi (fædd í janúar 2003)

Fritzi er 15 ára á árinu og kemur frá Sviss. Fritzi á eina eldri systur sem hún er mjög náin. Hún er glaðvær, kurteis og traust.

Hún hefur gaman af að hlusta á tónlist og teikna. Hún hefur æft píanó í 6 ár og nýtur þess að æfa sig á píanóið heima fyrir. Ein af ástríðum Fritzi er hestar og þá íslenskir hestar sem hún hefur riðið síðan 2009. Hún byrjaði að fara á hesta þegar hún var 6 ára og tók “Brevet” sem er útreiðapróf árið 2014. Hún fer með systur sinni í útreiðatúra á hverjum sunnudegi.

Fritzi er grænmetisæta en segist vilja geta borðað kjöt og fisk á meðan á dvöl hennar stendur á Íslandi. Fritzi er sjálfstæð og og er vön að hugsa um sig sjálf.

Riccardo

Ítalía

Riccardo (fæddur í ágúst 2001)

Riccardo er 16 ára strákur frá bæ á mið – Ítalíu þar sem hann býr með foreldrum sínum og yngri bróður.

Riccardo er öruggur með sjálfan sig og á ekki erfitt með að opna sig né að tjá tilfinningar sínar.
Hann elskar tónlist og syngur mikið. Hann er mjög listrænn og elskar að taka myndir og búa til myndbönd. Hann hefur mjög gaman að því að skrifa og vonast til þess að verða rithöfundur í framtíðinni. Honum finnst einnig mjög gaman að vera í skóla og er góður námsmaður.

Riccardo er ekki hræddur við áskoranir og er mjög spenntur og forvitinn að koma til Íslands. Hann er spenntur fyrir tækifærinu að geta vaxið og kynnast nýrri menningu. Hann hefur alltaf verið forvitinn og finnst gaman að læra eitthvað nýtt.

Þriggja mánaða nemar á ECTP prógrammi

ECTP stendur fyrir European Citezenship Trimester Program en nemar á því prógrammi enda dvöl sína á námskeiði í Brussel, Belgíu.

Lorenzo

Ítalía

Lorenzo (fæddur í apríl 2002)

Lorenzo er 16 ára strákur frá Róm á Ítalíu þar sem hann býr ásamt foreldrum sínum og yngri systur.

Lorenzo lýsir sjálfum sér sem forvitnum ungum dreng, og er það þessi forvitni sem hefur hrifið hann til að kynnast nýjum hlutum og er helsti hvati hans til að fara í skiptinám til að kynnast nýrri menningu og tungumáli.

Lorenzo nýtur þess að eyða tíma með vinum sínum og spila með þeim fótbolta, blak og tölvuleiki, sem og hann elskar að fara á skíði með fjölskyldunni. Hann kann þó einnig að meta tíma með sjálfum sér og finnst honum gaman að rölta um með myndavél við hönd og æfa sig í ljósmyndun og öðrum listum. Lorenzo gengur í alþjóðaskóla sem býður upp á fjölbreyttara nám en venjulegir skólar á Ítalíu og eru uppáhalds fögin hans eru latína, bókmenntir og saga.

Hann hlakkar til að kynnast menningu og náttúru lands sem er gjörólík hans eigin og vonast til að eignast nýja vini til að deila reynslunni með.

Lana-SLO

Slóvenía

Lana (fædd í júní 2001)

Lana er 17 ára stúlka frá Slóveníu. Hún býr í einni af stærri borgum Slóveníu austarlega í landinu ásamt foreldrum sínum og tveimur eldri systkinum.

Lana hefur mikinn áhuga á listum og teiknar mikið og málar. Hún gengur í listaskóla þar sem hún leggur stund á listina og nýtur þess að vera skapandi. Nýlega hefur hún einnig byrjað að hlaupa mikið og finnst gott að hreinsa hugann með því að fara út að hlaupa. Lana hefur einnig áhuga á stjörnufræði og hefur farið í einskonar “stjörnufræði búðir”. Hún elskar að horfa upp í himininn og spá í stjörnurnar en hlakkar einnig mikið til að sjá íslensku norðurljósin.

Hún hlakkar til að eignast nýja vini á Íslandi og að sjá náttúru Íslands. Henni finnst gaman að læra ný tungumál og stefnir á að vera búin að kynna sér grunnatriði íslenskunnar áður en hún kemur. Lana elskar að kynna sér nýja menningarheima og hlakkar líka til að kynnast íslenskri menningu og öllu sem því við kemur.