Í ágúst koma til landsins 31 erlendir skiptinemar til Íslands á vegum AFS. Nemarnir eru á aldrinum 15-18 ára, ganga í skóla út um allt land og dvelja hér í þrjá og tíu mánuði. Fósturfjölskyldur útvega nemunum fæði og húsnæði en annan kostnað greiðir neminn sjálfur, t.d. tómstundir og vasapening. AFS sér um að skrá nemann í skóla, greiðir skólagjöld og námsbækur og aðstoðar við aðlögun t.d. með námskeiðum.

Fósturfjölskyldur gera starf AFS mögulegt

Á hverju ári taka 10.000 fósturfjölskyldur, í 54 löndum þar sem AFS starfar, á móti skiptinemum.  AFS hefur áratuga reynslu af nemendaskiptum þar sem samtökin hafa starfað í rúmlega 50 ár í fjölmörgum löndum í heiminum og fleiri þúsund skiptinemar og fósturfjölskyldur hafa tekið þátt í starfsemi AFS.

Fólk sem hefur áhuga á fólki og löngun til þess að kynnast veröldinni á að grípa tækifærið og taka að sér skiptinema.

Allt sem þið þurfið er hjartarými, löngun til að læra eitthvað nýtt, kímnigáfu  og sveigjanleika. 

Þeir sem hafa áhuga á nánari upplýsingum geta haft samband við skrifstofu AFS á Íslandi í síma: 552-5450 eða á [email protected]

ZiMing frá Kína (maí 2003)

ZiMing kemur frá Qingyuan í Kína og er lýst sem ljúfum dreng sem kemur fram við fólk af virðingu. ZiMing er náinn foreldrum sínum og yngri bróðir.

Hann opin og á marga góða vini en getur þó verið smá feiminn þegar hann hittir ókunnuga.

Hann hefur mikinn áhuga á körfubolta sem hann æfir af kappi. Hann spilar á gítar og hefur mjög gaman af kvikmyndum þá sérstaklega gríni og vísindaskáldskap. Einnig hefur hann gaman af skrautskrift, badminton og fótbolta. Hann er hrifin af allskonar mat og nýtur þess að búa sér til te.

Hann leggur mikið upp úr því að vera ábyrgur þegn og er sjálfboðaliði í leikskóla. Fölskylda ZiMing er að hýsa AFS nema frá Ítalíu. ZiMing hlakkar mikið til að koma til Íslands sem hann veit að er allt öðruvísi en Kína.

Shunsuke (nóvember 2002)

Shunsuke er 17 ára drengur frá Kanagawa í Japan. Þar býr hann með foreldrum sínum og systur.

Þau systkinin ná vel saman þó svo þau séu ólíkar persónur. Sjálfur segir Shunsuke sig vera feimnari en systur sína. Þau spila oft tölvuleiki saman.

Shunske hefure æft karate í 8 ár og hefur mjög gaman að þeirri íþrótt. Hann byrjaði að æfa því hann vildi styrkja sig. Hann segist hafa áhuga á að kenna öðrum karate í framtíðinni.

Shunsuke telur mjög mikilvægt að virða skoðanir annara og hann hlakkar til að fara í skiptinám og víkka sjóndeildarhringinn.

Gavrilo (júlí 2001)

Gavrilo er 18 ára strákur frá Belgrade í Serbíu. Hann býr með foreldrum sínum og tveimur yngri bræðrum. Hann er duglegur að hjálpa til við heimilisstörfin og aðstoðar bræðrum sínum með heimalærdóm.

Gavrilo er kátur og hugmyndaríkur. Hann leggur mikið upp úr því að koma öðrum í gott skap í kringum sig.

Honum finnst gaman að vera með vinum sínum, spjalla um áhugamálin og um bókmenntir. Hann hefur einnig gaman að því að lesa, spila tölvuleiki, spila borðspil (t.d. Dungeons & Dragons) og hlusa á tónlist. Svo á fjölskyldan hund sem hann fer oft með út að labba.

Gavrillo hefur gaman að tungumálin. Hann er mjög góður í ensku, lærir frönsku og japönsku og hlakkar mikið til að læra íslensku líka.

Rosalie (ágúst 2002)

Rosalie er frönskumælandi stelpa frá smábæ í Quebec, Kanada. Hún verður 17 ára í ágúst á þessu ári.

Rosalie á þrjú systkini, eina eldri systur og tvo yngri bræður en hún er mjög náin systur sinni.

Rosalie er námsfús og opin manneskja og hún er ekki hrædd við að tjá skoðanir sínar sem hún telur vera einn af betri kostunum við sig. Rosalie elskar allar íþróttir en hún stundar fimleika af miklu kappi. Ef Rosalie setur sér markmið reynir hún að gera allt til þess að láta þau ganga upp!

En umfram allt reynir hún að hafa gaman af lífinu og er alveg sama þótt hún syndi á móti straumnum. Ástæðan fyrir því að Rosalie langar í skiptinám er sú að hún vill opna hugann fyrir nýjum hugmyndum, læra nýtt tungumál og kynnast nýrri menningu hjá íslenskri fjölskyldu.

Kippei (apríl 2001)

Kippei er 18 ára strákur frá Japan. Hann er opinn og vingjarnlegur og á auðvelt með að eignast vini.

Kippei á sér mörg áhugamál. Meðal annars hefur hann gaman af því að búa til og borða sushi og hlakkar til að elda japanskan mat fyrir fósturfjölskylduna sína á Íslandi.

Hann hefur líka gaman að útiveru og íþróttum og æfir blak. Hann er spenntur að prufa að æfa nýja íþrótt í skiptináminu.

Kippei er mjög spenntur að koma hingað og kynnast nýrri menningu sem hann er viss um að sé mjög ólík þeirri menningu sem hann ólst upp við.

Sune (janúar 2003)

Sune er 16 ára strákur frá Frederikshavn í Danmörku. Hann á tvö systkini sem honum kemur vel saman við.

Sune finnst gaman að spila fótbolta og tölvuleiki með vinum sínum. Einnig hefur hann gaman að því að horfa á ýmsar íþróttir eins og hokký og handbolta.

Sune hefur mikinn áhuga á því að ferðast og kynnast nýrri menningu og hlakkar til þess að læra íslensku.

Sune elskar hunda og ketti og kanínur en er svolítið smeykur við dýr sem eru stærri en hann. Hann hefur sérstaklega gaman að dýrum sem hægt er að leika við. Sune dreymir um að verða flugmaður þegar hann verður stór og sjá allan heiminn.

Nils (apríl 2003)

Nils er 16 ára strákur frá Þýskalandi. Hann er heillaður af íslenskri náttúru og hlakka til að koma til landsins og upplifa hana.

Nils er skáti og hefur gaman af því að vera í náttúrunni og fara í fjallgöngur.

Hann spilar körfubolta og fótbolta með vinum sínum. Einnig hefur hann gaman að því að sigla og fara í ferðalög með fjölskyldunni sinni.

Nils er duglegur í skólanum og uppáhalds fagið hans er eðlisfræði. Til að vinna sér inn auka vasapening hjálpar Nils gamalli konu með garðinn sinn.

Tom (júní 2001)

Tom er 18 ára strákur frá frönskumælandi Belgíu. Hann býr með móður sinni og stjúpföður. 

Tom hefur mikinn áhuga á dýrum, náttúru og íþróttum. Einnig hefur hann gaman að tónlist, vera með vinum sínum og prufa nýjan mat en Tom segist sjálfur borða allt. Uppáhalds fögin hans í skóla eru saga og landafræði.

Tom er að sögn móður sinnar hjálpsamur, metnaðarfullur og stundum pínu þrjóskur. Hann er barngóður og stoltur af því að vera guðfaðir frænku sinnar sem er eins árs. Tom hlakkar til að koma til Íslands og kynnast nýrri menningu og nýju fólki.  

Samantha (maí 2001)

Samantha býr í Hong Kong ásamt foreldrum sínum og yngri bróður.

Hún er róleg og mikill lestrarhestur. Hún er ákaflega tónelsk og tónlist er henni allt. Hún hefur spilað á píanó svo lengi sem hún man og hefur síðan sjálf lært á gítar með aðstoð internetsins.

Útivist spilar líka stóran þátt í lífi Samönthu og fjölskyldu hennar og eiga þau það til að eyða frídögum sínum saman í einhversskonar útiveru. Hún vonast til að kynnast hefðum og menningu Íslands ásamt því að víkka sjóndeildarhringinn.

Samantha er líka forvitin um lífssýn og gildi annarra menningarheima í von um að dýpka þekkingu sína á lífstíl annarra. Að læra okkar ástkæra og ylhýra er einnig eitt af stærstu markmiðum hennar á meðan á skiptináminu stendur.

Giovanni (nóvember 2002)

Giovanni er frá norður Ítalíu og á hann tvo eldri bræður og yngri systur. Giovanni er náinn fjölskyldu sinni og er mjög heillaður af vísindum, þá sérstaklega stærðfræði og eðlisfræði. Það sem heillar hann mest við vísindin er að hann getur oftast komist að niðurstöðu og það er alltaf eitthvað rétt eða rangt. Hann á líka marga vini sem hafa áhuga á sama sviði.

Hann er mjög áhugasamur um leiklist og er hann partur af leikhóp sem sýnir litlar sýningar. Hann er mjög góður að leysa Rubik’s Cube og getur gert það á innan við 20 sekúndum, með einni hönd! Hann er talsmaður nema í skólanum sínum og í framtíðinni vill hann leggja stund á vísindi.

Hann hlakkar til að vera eitt ár í burtu og heldur að það muni hjálpa honum mikið að þroskast og blómstra. Hann þekkir AFS skiptinámið en báðir bræður hans hafa farið í skiptinám. Sjálfur hefur Giovanni einungis farið í stutt verkefni og var 3 vikur í Þýskalandi síðasta sumar.  

Agnese (apríl 2002)

Agnese er 17 ára stúlka frá Norður Ítalíu. Hún er mjög náin systur sinni og frænku. Hún býr hjá foreldrum sínum sem segja hana samviskusama og duglega að hjálpa til heima.

Agnese er með ofnæmi fyrir köttum en elskar hunda. Hún segir vini sína lýsa sér sem opinni og skemmtilegri stelpu.

Henni finnst gaman að vera með vinum sínum, taka þátt í útivist og íþróttum, fara í sund og dansa.

Agnese er dugleg í skólanum og leggur sig fram við að standa sig vel þar. Hún hefur sérstaklega áhuga á tungumálum og náttúruvísindum sem og heimspeki.

Leo (febrúar 2002)

Leo er 17 ára og kemur frá Noregi. Þar býr hann á litlum sveitabæ með móður sinni og yngri systur sem hann er mjög náinn.

Leo og fjölskylda hans eiga nokkur dýr þar á meðal, hesta, tvo hunda og ketti og fjögur lamadýr. Leo er mjög hændur að dýrum og er duglegur að hugsa um þau.

Leo er mjög ljúfur drengur og á fáa en nána vini. Hann er sjálfstæður, rólegur og hefur mikinn áhuga á sagnfræði. Hann stundar ekki neina sérstaka íþrótt en hefur gaman af fjallgöngum og fara á skíði.

Hann er duglegur námsmaður og er uppáhalds fögin hans sagnfræði og tungumál. Móðir hans lýsir honum sem kurteisum og duglegum dreng og sé eldri en aldur hans segir til um.

Beatrice (desember 2002)

Beatrice er 16 ára stelpa frá norður Ítalíu. Hún býr með móður sinni og systur og fer til föður síns tvisvar í mánuði. Heima eru einnig hundur og kanína. Vinir Beatrice segja hana félagslynda, metnaðarfulla og hressa.

Beatrice er dugleg í skólanum og leggur hart að sér í náminu. Hún hefur sérstaklega gaman að því að læra tungumál og er í ensku, spænsku og frönsku. Lögfræði og hagfræði eru einnig tímar sem hún hefur gaman að. Beatrice æfir söng og er einnig hrifin af allskonar íþróttum.

Beatrice hlakkar til að koma til Íslands og kynnast nýrri menningu. Hún er viss um að dvölin muni hafa góð áhrif á hana og gera hana að þroskaðri manneskju.

Anne (nóvember 2003)

Anne er 15 ára stúlka frá Frakklandi. Hún býr með foreldrum sínum en á tvo eldri bræður sem eru fluttir að heiman.

Fjölskyldan er náin og hittist til að spila og borða saman. Einnig er hún mjög náin ömmu sinni og afa.

Anne á hund og kött og hefur mjög gaman að dýrum. Hún hefur farið á hestbak reglulega síðan hún var 3ja ára og þætti gaman að geta haldið því áfram á Íslandi.

Anne er sjálfstæð og með opið hugarfar. Hún er ákveðin og segist sjálf geta verið pínu þrjósk. Foreldrar hennar segja hana duglega (og pínu þrjóska) og hafi gaman að því að baka fyrir þau sætabrauð.

Benjamin (mars 2002)

Benjamin er 17 ára drengur frá Santiago í Chile. Þar býr hann með foreldrum sínum, eldri systur og yngri bróður.

Hann er rólegur drengur sem er nánast alltaf í góðu skapi, hann lítur á lífið með jákvæðum augum.

Hann æfir körfubolta í skólanum og hefur mjög mikinn áhuga á bæði körfubolta og fótbolta. Hann horfir mikið á fótbolta með pabba sínum. Hann er mjög virkur í félagslífi í kringum sig hvort sem það er í körfuboltanum, skólanum eða í kirkjusamfélaginu.

Hann er mjög spenntur að koma til Íslands, kynnast menningunni og nýju fólki.

 

Carla (mars 2003)

Carla er 16 ára stelpa frá þýskumælandi hluta Sviss. Hún býr þar með foreldrum sínum, yngri bróður og eiga þau einn kött. Hún ferðast mikið með fjölskyldu sinni og hefur komið til Íslands í þriggja mánaða frí þegar hún var 5 ára.

Hún er vinaleg og opin stelpa, hún er orkumikil og í kringum hana er vanalega hlátur. Hún er einnig þolinmóð og hlustar á fólk, hún setur sig í spor annarra áður en hún dæmir og hún hefur litla þolinmæði fyrir dónalegu fólki. Hún er mjög náin vinum sínum.

Hún æfir dans, er í skátunum og hefur spilað á fiðlu í 10 ár en hún hefur mjög mikinn áhuga á allri tónlist. Hún er mjög spennt að koma til Íslands og kynnast nýrri menningu og sjá hvernig fólk býr í öðrum löndum.

Þriggja mánaða nemar á ECTP prógrammi

ECTP stendur fyrir European Citezenship Trimester Program en nemar á því prógrammi enda dvöl sína á námskeiði í Brussel, Belgíu.

Maja (des. 2003) - 3 mán. nemi

Maja er 15 ára stúlka frá Þýskalandi. Hún býr með móður sinni og bróður. Pabbi hennar býr rétt hjá þannig hún getur eytt miklum tíma með báðum foreldrum sínum.

Maja hefur áhuga á leiklist og dansi, tónlist og hefur gaman að því að versla. Hún er vinaleg, hjálpsöm, fyndin og með opinn hug.

Maja er mjög spennt að koma til Íslands. Hún hlakkar mikið til að kynnast nýrri menningu og læra nýtt tungumál. Hún valdi að koma til Íslands því hún hefur heyrt að fólk hér sé upp til hópa opið og hamingjusamt. Einnig hlakkar hún til að sjá náttúruna og kynnast öðruvísi skólakerfi.

Ena (júlí 2003) - 3 mán. nemi

Ena er alveg að verða 16 ára og kemur frá Antwerpen í Belgíu. Þar býr hún  með móður sinni en faðir hennar býr í Berlín. Hún á stóra fjölskyldu sem hún er mjög náin og þykir vænt um.

Ena segir sína bestu eiginleika vera að hún er heiðarleg, forvitin og ævintýragjörn. Ena hefur æft á píanó í 7 ár og einnig hefur hún gaman af klifri og hefur stundað það áhugamál í þrjú ár. Hún er duglegur nemandi og hlakkar mikið til að læra íslensku.

Ena er grænmetisæta og borðar hvorki fisk né kjöt. Hún segist þó alls ekki hafa neitt á móti því að aðrir borði kjöt í kringum hana og að hún sé dugleg að elda sér mat sjálf.

Alessandra (nóv. 2002) - 3 mán. nemi

Alessandra er 16 ára stúlka frá Ítalíu. Hún býr með foreldrum sínum og 11 ára systur sem hún deilir herbergi með. Þær eru góðar vinkonur og hún á í góðu sambandi við foreldra sína.

Alessandra telur sig vera jákvæða og með opið hugarfar. Hún er skipulögð og með hlutina á hreinu. Hún hefur verið umsjónarmaður í bekknum sínum í þrjú ar.

Alessandra er orkumikil og málglöð. Henni finnst gaman að lesa og horfa á myndir og þáttaraðir. Hún æfði dans í 10 ár, spilar á píanó og hefur gaman að því að syngja. Einnig hefur hún áhuga á ljósmyndum og eldamennsku sem og sundi.

Ilaria (ágúst 2003) - 3 mán. nemi

Ilaria er 16 ára stúlka frá Ítalíu. Hún er miðjubarn og á tvo bræður. Ilaria er róleg og hefur gaman að því að spjalla við vini sína í ró og næði. Hún hefur æft dans síðan hún var 6 ára og elskar tónlist.

Ilaria er framúrskarandi námsmaður og leggur mikinn metnað í námið sitt. Hún hefur sérstaklega mikinn áhuga á stærðfræði og stefnir á hákskólanám í því þegar þar að kemur.

Ilaria er mjög sjálfstæð og einnig er mikilvægt fyrir hana að takast á við vandamál um leið og þau koma upp en ekki leyfa þeim að grassera. Þetta telur hún hafa mjög jákvæð áhrif á sambönd hennar við annað fólk.

Ilaria tekur þátt í kirkjustarfi og hefur gaman að því að vinna með börnum.