Í ár mun AFS á Íslandi hýsa færri nema en áætlanir höfðu gert ráð fyrir og er það engin leynd að Covid hefur breytt þessum áætlunum. Í ágúst 2020 koma því til landsins um 15 erlendir skiptinemar á vegum AFS ef við náum að finna fósturfjölskyldur fyrir alla. Nemarnir eru á aldrinum 15-18 ára, ganga í skóla út um allt land og dvelja hér í tíu mánuði. Nú reynir á samtakamátt okkar allra að finna fjölskyldur í þessu erfiða ástandi svo við getum í það minnsta boðið þessum 15 nemum að láta draum sinn verða að veruleika og koma til okkar í skiptinám.

Fósturfjölskyldur útvega nemunum fæði og húsnæði en annan kostnað greiðir neminn sjálfur, t.d. tómstundir og vasapening. AFS sér um að skrá nemann í skóla, greiðir skólagjöld og námsbækur og aðstoðar við aðlögun t.d. með námskeiðum.

Fósturfjölskyldur gera starf AFS mögulegt

Á hverju ári taka 10.000 fósturfjölskyldur, í 54 löndum þar sem AFS starfar, á móti skiptinemum. AFS hefur áratuga reynslu af nemendaskiptum þar sem samtökin hafa starfað í rúmlega 60 ár í fjölmörgum löndum í heiminum og fleiri þúsund skiptinemar og fósturfjölskyldur hafa tekið þátt í starfsemi AFS.

Fólk sem hefur áhuga á fólki og löngun til þess að kynnast veröldinni á að grípa tækifærið og taka að sér skiptinema.

Allt sem þið þurfið er hjartarými, löngun til að læra eitthvað nýtt, kímnigáfu  og sveigjanleika. 

Þeir sem hafa áhuga á nánari upplýsingum geta haft samband við skrifstofu AFS á Íslandi í síma: 552-5450 eða á [email protected]

Skiptinemar 2020

Þegar búið er að fara yfir umsóknir nemanna sem sækja um dvöl fyrir haustið 2020 munum við jafnóðum bæta inn lýsingum hér að neðan.

Camille (sept. 2003)

Camille er 16 ára og kemur frá fjallahéraði í suðaustur hluta Frakklands og á hún þrjú systkini sem hún er náin. Henni er lýst sem listrænni, rólegri og kraftmikilli ungri konu. Hún er friðsinni og getur oft róað niður erfið samskipti á milli systkina sinna. 

Hún hefur mörg áhugamál t.d. tónlist en hún spilar á gítar, trommur, píanó og bassa.

Einnig finnst henni gaman að teikna og taka þátt í leiklistarstarfi. Hún nýtur útivistar á sumrin og hefur gaman af því að fara í fjallgöngur, skoða helli og fara á kanóa. 

Hún hefur gaman af náminu og fróðleiksfús ung kona og getur hún séð sjálfan sig sem líffræðing í framtíðinni en langar að ferðast og kynnast nýrri menningu áður en hún gerir það.

Thomas (ágúst 2003)

Thomas2

Thomas verður 17 ára í ágúst og kemur frá suðurhluta Frakklands þar sem hann býr með foreldrum sínum og þremur systkinum. Hann er skrafhreifinn og félagslyndur, rólegur, ábyrgur og mjög forvitinn. 

Honum finnst gaman að vera með vinum sínum og hefur mikinn áhuga á allskonar íþróttum. Thomas á mörg áhugamál flest íþróttatengd svo sem að fara á fjallhjól, brimretti, skíði og svo spilar hann tennis reglulega og fótbolta daglega með vinum sínum. 

Hann hefur gaman af bílum og getur séð sig sem verkfræðing í framtíðinni. Honum finnst matur góður og þykir gaman að prófa nýjan mat og hlakkar til að prófa íslenska rétti.

Julia (mars 2003)

Julia2

Julia verður 17 ára næsta mars og kemur frá Suðvestur hluta Frakklands. Julia er yngst þriggja systkina og er náin fjölskyldu sinni. Hún er ábyrg og með góða aðlögunarhæfni. Hún er glaðlynd, vinaleg, sjálfstæð og róleg ung kona. 

Henni finnst mjög gaman að teikna, gera Origami, skrifa sögur og svo spilar hún einnig á Ukulele. Julia er hluti af samtökum fyrir götulistamenn í borginni sem hún býr í og tekur virkan þátt í öllu starfi samtakanna. 

Julia er mjög hrifin af leiklist og er í leiklistarhópi sem hún hefur verið hluti af í 8 ár. Þau sýna nokkrar sýningar á ári og getur hún hugsað sér að vera leikkona eða vinna innan leiklistargeirans í framtíðinni.

Julia er mjög hrifinn af hestum og í raun dýrum yfir höfuð og á hún einn kött. Julia hefur einnig gaman að íþróttum og þykir henni sérstaklega gaman í blaki og fótbolta.

Hún hlakkar til að kynnast íslenskri menningu og tungumáli og lofar að koma með góða skapið og gleðina með sér.

Solène (nóvember 2003)

Soléne verður 17 ára í nóvember og kemur frá Frakklandi. Hún skiptir tíma sínum á milli París og Burgundy. Virka daga er hún í París ásamt foreldrum sínu og gengur þar í skóla. Um helgar fer fjölskyldan til Burgundy þar sem foreldrar hennar eiga hús út í sveit. Soléne býr með foreldrum sínum en tvö eldri systkini hennar eru flutt að heiman. 

Soléne finnst gaman að púsla, hlusta á hlaðvörp, horfa á bíómyndir, teikna og er í  leiklist. Hún er félagslynd, er náin vinum sínum og þykir gott að brosa. Hún á eina rottu sem hún er mikið með.

Soléne á mörg áhugamál og getur séð sjálfa sig vinna við leiklist, líffræði eða sagnfræði í framtíðinni. Hún er forvitin og ástríðufull ung kona,  með feminískt hjarta og trúir á réttlæti.

Lars (apríl 2004)

Lars er 16 ára og kemur frá vesturhluta Þýskalands þar sem hann býr ásamt foreldrum sínum og tveimur eldri bræðrum. Lars er víðsýnn, traustur og mikill húmoristi. Hann segist þó vera frekar rólegur í eðli sínu. Foreldrar hans segja að Lars sé félagslega sterkur, forvitin og sjálfstæður ungur maður. Hann er náinn fjölskyldu sinni og er spenntur að kynnast nýjum hefðum hjá fjölskyldu sinni á Íslandi. 

Lars æfir handbolta og vill gjarnan geta haldið því áfram hér á landi. Honum finnst gaman að spila á píanó og svo er hann í skátunum. Þegar hann er með vinum þá er hann ekki ólíkur mörgum íslenskum drengjum og spilar gjarnan tölvuleiki með þeim. 

Hann vill læra tölvunarfræði og vera tölvuleikjahönnuður (game designer). Lars finnst Ísland vera fallegt land og hlakkar til að læra tungumálið og kynnast menningu landsins.

Loris Einar (júlí 2004)

Loris Einar verður 16 ára í júlí og kemur frá Zurich í Sviss þar sem hann býr ásamt móður sinni og yngri bróðir. Loris á ættir að rekja til Íslands en afi hans kom frá Íslandi. Loris er rólegur, yfirvegaður, glaður og vinalegur. Hann segist geta verið soldið feiminn en vinir hans lýsa honum sem trygglyndnum og fyndnum. 

Loris er hrifin af íþróttum þá sérstaklega tennis, skíðum eða fara í fjallgöngur. Loris er mjög hrifin af dýrum og á fjölskyldan þrjár skjaldbökur og svo passar hann hund annað slagið. Loris hefur æft píanó frá fimm ára aldri og spilar einnig á trommur en hann hefur mikinn áhuga á tónlist. 

Loris hefur nokkrum sinnum riðið á íslensku hestum og hlakkar mikið til að upplifa náttúru og veðurfar Íslands og er spenntur að læra íslensku.

Emerick (janúar 2002)

Emerick er 18 ára og kemur frá franska hluta Belgíu þar sem hann býr með móður sinni, stjúpföður sínum og tveimur yngri systrum. Hann er rólegur, fyndinn og góðhjartaður. Hann er náinn fjölskyldu sinni og fer oft með mömmu sinni á tónleika, hann hefur ferðast nokkuð með föður sínum og spilar borðspil eða fer í bíó með stjúpföður sínum.

Hann spilar á gítar en hefur líka gaman af öðrum hljóðfærum. Emerick finnst rokk skemmtilegast en nýtur þess einnig að hlusta á allskonar tónlist. Emerick hefur æft skotfimi í fjögur ár og hefur hann meðal annars unnið til verðlauna í skotfimi. Emerick finnst gaman að tölvuleikjum og er leikurinn “Consturction” í miklu uppáhaldi.

Honum hlakkar til að læra íslenskuna því hann hefur gaman af tungumálum og langar að læra nokkur í framtíðnni.

Barbara (nóvember 2002)

Barbara verður 18 ára í nóvember og kemur frá Póllandi þar sem hún býr með foreldrum sínum og yngri bróður. Barbara er listræn, opin, vingjarnleg og glaðlynd.

Hún hefur mikinn áhuga á tungumálum og getur sagt „ég elska þig“ á 25 tungumálum. Barbara segir að tónlist, ljóð og náttúra séu henni afar mikilvægi. Barbara spilar á nokkur hljóðfæri m.a. á gítar, ukele, píanó, flautu og er uppáhaldshljóðfærið hennar tromma sem ber nafnið Hang. Hana dreymir líka að geta sungið í Óperu en hún æfir söng. Hana langar gjarnan að fá tækifæri til að fara í kór á Íslandi.

Barbara hefur mikinn áhuga á allskonar listformi og þykir gaman að kynnast nýrri listsköpun. Hún er spennt að koma til Íslands og kynnast náttúrunni og listamenningu landins og er afar áhugasöm að læra íslensku.

Barnabás (október 2003)

Barnabás verður 17 ára í október og kemur frá Ungverjalandi þar sem hann býr með mömmu sinni en ver líka miklum tíma með ömmu sinni og afa. Barnabás er opinn, glaðlyndur, ævintýragjarn, réttsýnn og ákveðinn. 

Hann hefur mikinn áhuga á menningu og tungumálum þá sérstaklega frá norður Evrópu (skandinavíu). Vegna áhuga hans á ólíkri menningu þá er hann nú þegar sjálfboðaliði hjá AFS í Ungverjalandi. Barnbás er afar spenntur að koma til Íslands og er þegar byrjaður að læra íslensku. 

Hann hefur gaman að dægurmenningu í tónlist og sjónvarpi og segir uppáhaldstónlistina vera Jói P. & Króli, Björk og GusGus. Barnabás spilar á orgel og segist langa til að prufa að spila á orgel  íslenskri kirkju.

Filippo (maí 2003)

Filippo verður 17 ára í maí og kemur frá Como á Ítalíu þar sem hann býr með foreldrum sínum og eldri bróður. Filippo er sjálfstæður, góðhjartaður, víðsýnn og viðkvæmur. Hann getur líka vera frekar feiminn en segir að leiklistin sem hann hefur æft síðastliðin fjögur ár hafi hjálpað honum mikið með það. Filippo er líka glettin og er vinur vina sinna. Hann leggur mikið upp úr góðum vinskap og segir að traust og trúnaðar skipti hann miklu máli.

Filippo hefur verið í skátunum frá átta ára aldri og hittir hann hópinn sinn a.m.k. einu sinni í viku. Hann hefur æft sund til margra ára og byrjaði að læra tennis síðastliðið haust. Filippo nýtur þess að hlusta á tónlist og lesa bækur og ljóð. Hann er spenntur að læra íslensku og hlakkar til þess að kynnast nýrri menningu og öðruvísi hugsunarhætti en hann er vanur frá sínum heimahögum.

Filippo er með ofnæmi fyrir ryki, grasi og myglu sem hefur samt ekki mikil áhrif á hans daglega líf og truflar hann ekki mikið.

Allegra (febrúar 2003)

Allegra er 17 ára og kemur frá litlum bæ á norður Ítalíu þar sem hún býr með foreldrum sínum og eldri systur sem er komin í háskóla. Hún á lítinn hund, hann Totó, sem er orðin 14 ára gamall. Hún er víðsýn, forvitin og alltaf tilbúin að tækla ný ævintýri og áskoranir. Allegra er glaðlynd og semur vel við fólk almennt og er með hlýja nærveru. Hún er ábyrg og kurteis ung kona. Hún hefur sínar eigin skoðanir en segir mikilvægt að hlusta á aðra og meðtaka ólíkar skoðanir. Hún hefur mikinn áhuga á grísku og er sjálfboðaliði í skólanum sínum við aðstoða aðra nema við grískunámið.

Hún elskar tónlist og lærði á píanó í fjögur ár og tvö ár á gítar. Nú í ár er hún í kór í fyrsta sinn og finnst mjög gaman. Tónlist er henni því mjög mikilvæg. Allegra hefur mikinn áhuga á ljósmyndun, bæði að taka myndir sem og fara á sýningar.

Allegra hefur æft blak í tvö ár og þykir gaman í hópíþróttum hvort sem er sem þátttakandi eða til að horfa á.

Giuliano (ágúst 2004)

Giuliano verður 16 ára í ágúst og kemur frá eyjunni Sardínu á Ítalíu þar sem hann býr ásamt foreldrum sínum eldri bræðrum. Giuliano á þrjá eldri bræður og kom elsti bróðir hans skiptinám til Íslands fyrir 15 árum. 

Giuliano er lýst sem hjartahlýjum, vinalegum og fyndum ungum manni. Sjálfur segist hann vera rólegur, opinn, metnaðarfullur og sýni öðrum virðingu. Honum finnst gaman að vera með vinum sínum og æfir þrisvar í viku lyftingar. Giuliano leggur mikið upp úr hreysti, menningu, vináttu og njóta lífsins og hafa gaman. 

Uppáhaldsfögin í skólanum eru enska, vísindi, tölvufræði og íþróttir en hann segist gjarnan sjá sig sem tölvunarfræðingur í framtíðinni. Giuliano segist vera hræddur við kóngulær og njóti borgarlífsins. Giuliano hlakkar til að kynnast íslenskri menningu

Maddalena (ágúst 2003)

Maddalena verður 17 ára í ágúst og kemur frá litlum bæ nálægt Parma á Ítalíu þar sem hún býr með foreldrum sínum og þremur bræðrum. Þau eiga líka gamlan hund, Ghibly, og köttinn Nala. Fjölskyldan er náin og þau tala mikið saman. 

Maddalena er glaðlynd, góðhjörtuð, opin og á auðvelt með samskipti og setja sig í spor annarra. Maddalena er sjálfboðaliði í hóp sem vinnur sér inn pening með því að taka að sér ýmiss störf eins og garðyrkju. Það sem þau vinna sér inn er svo sent til hjálparsamtaka í Suður Ameríku. 

Maddalena æfði blak í fimm ár og segist ennþá elska blak þrátt fyrir að hafa lagt það til hliðar til að geta einbeitt sér betur af skólanum. Hún elskar að mála og fara í gönguferðir þar sem hún elskar náttúruna. Hún ætti því að sóma sér vel á Íslandi. Hún hlakkar mikið til að koma og kynnast Íslandi og menningu landsins.

Sofia (nóvember 2003)

Sofia verður 17 ára í nóvember og kemur frá norður Ítalíu þar sem hún býr með foreldrum sínum og tveimur eldri systkinum. Fjölskyldan á einn hund og tvo ketti. Sofia er glaðlynd, hjartahlý, jákvæð og ákveðin. 

Hún er félagslynd og þykir mjög gaman að vera með vinum sínum. Henni finnst gaman að tækla nýjar aðstæður og áskoranir og er það ekki síst þess vegna sem hana langar í skiptinám. Þar að auki hefur hún mikinn áhuga á tungumálum sem mun nýtast henni vel við að læra íslensku. 

Sofia hefur mikinn áhuga á mismunandi íþróttum og æfir meðal annars sund, fimleika og klifur. Sofia tala einnig um ást sína á leiklist, bókmenntum og tónlist og spilar hún á þverflautu. Sofia er með ofnæmi fyrir hnetum, sesamfræjum, hunangi og mjólkurafurðum.

Jenny (júlí 2003)

Jenny verður 17 ára í júlí og kemur frá litlum bæ í Finnlandi. Þar býr hún ásamt foreldrum sínum og fullt af dýrum m.a. hundum, ketti, kjúklingum og naggrísum. 

Jenny er mjög opin og segist ekki vera neitt feimin. Mamma hennar segir að Jenny sé mjög góðhjörtuð og sjálfstæð ung kona. Hún er jákvæð og hefur sértakan áhuga á mannréttindum og stjórnmálum og heldur úti bloggi um stjórnmál. Hana dreymir um að vinna fyrir Sameinuðu þjóðirnar einn daginn og segir að Eleanor Roosevelt sé fyrirmynd sín.

Jenny hefur gaman af lestri og elskar Harry Potter. Hún nýtur þess að fara í leikhús með mömmu sinni þar sem þær njóta báðar lista. Hún hefur verið í skátunum í 8 ár. Jenny er spennt að læra íslensku og hlakkar til að kynnast náttúru Íslands. Hún hefur mikinn áhuga á að sjá eldfjöll.

Samuel (febrúar 2004)

Samuel er 16 ára og kemur frá Bandaríkjunum þar sem hann býr ásamt foreldrum, yngri bróður og hundinum Sassy. Samuel er mjög opin og félagslyndur. Hann er sértsaklega hrifin af tungumálum og heillar íslenskan hann mikið en einnig finnska, norska og færeyska.

Hann elskar hunda og hefur alist upp með hundum allt sitt líf en er líka hrifin af köttum og fiskum. Þegar það kemur að sjónvarpsefni þá er hann mest hrifin af gríni. Hann hlustar gjarnan á tónlist frá öllum heimshornum en þá sértsaklega frá Íslandi, Noregi og Finnlandi. Samuel er hrifin af vetraríþróttum eins og skíðaiðkun og fara á skauta. Honum langar mikið að læra á snjóbretti og elskar alla útiveru. Samuel er hrifin af sjávarafurðum og hlakkar til að prófa að borða íslenskan fisk.

Marta (október 2003)

Marta verður 17 ára í október og kemur frá Króatíu þar sem hún býr ásamt foreldrum sínum og yngri bróður. Marta er opin, glaðlynd og hjálpleg. Hún elskar að lesa og er mjög hrifin af ævintýra- og vísindaskáldsögum eins og Harry Potter, Tolkien og The Hitchhiker’s Guide to the Galaxy. Það sama á við þegar það kemur að kvikmyndum og þáttum en hún segir að hún kunni einnig að með rómantískar gamanmyndir.

Marta elskar að baka kökur og kex og bakar oft um helgar. Henni finnt gaman að hlusta á tónlist og fara á tónleika. Mörtu gengur vel í skóla og eru uppáhaldsfögin hennar tungumál sálfræði og sagnfræði. Hún hlakkar til að læra íslensku og kynnast Íslendingum.

Martin (mars 2003)

Martin er 17 ára og kemur frá Tékklandi þar sem hann býr ásamt foreldrum sínum og er miðjubarn þriggja systkina. Martin er félagslyndur, fyndinn, virkur og á auðvelt með að taka að sér hlutverk leiðtoga, sem hefur komið sér vel í vinnu hans með skátunum. Hann segir að fjölskyldan sín sé skátafjölskylda sem nýtur útiveru.

Hann er virkur í heimilishaldi fjölskyldunnar og sér um að finna til efni fyrir samverustundir fjölskyldunnar, svo sem kvikmyndir, leikhús eða borðspil.  Martin er mjög mikill skáti en segir líka að tónlist sé honum mikilvæg. Hann spilar á gítar og Ukelele. Hann hefur líka gaman af íþróttum og æfði sund til margra ára. Hann nýtur þessa að ganga á fjöll og gekk 480 km í tveimur ferðum. Hann hlakkar til að kynnast náttúru Íslands, fólkinu og menningu landans.

Elin (september 2004)

Elin verður 16 ára í september og kemur frá Færeyjum. Hún  á tvö yngri systkini og einn eldri bróður. Elin er feimin, klár og fyndin. Elin hefur gaman af róðri á færeyskum viðarbátum. Hún er sjálfstæð og dugleg og vinnur á kaffihúsi með skóla.

Þegar hún er ekki að læra eða vinna þá finnst henni gaman að hitta vinkonur sínar til að spjalla, hlusta á tónlist og horfa á þætti. Henni gengur vel í skóla og segir uppáhaldsfögin vera innan félagsvísinda. Hún er réttsýn og finnst gaman að ræða um jafnrétti og mannréttindi. Hana hlakkar mikið til að kynnast landi og þjóð og læra íslensku.

Johanna (janúar 2004)

Johanna er 16 ára og kemur frá Austurríki þar sem hún býr ásamt foreldrum sínum og tveimur yngri systrum. Johanna er vinaleg, traust og metnaðarfull. Hún les mikið og segja foreldrar hana oft geta gleymt sér við lesturinn. Uppáhaldslesefnið er eftir Stephen King og svo ævintýra skáldsögur eins og Lord of the rings, Harry Potter og Percy Jackson. Johanna elskar dýr og þá sértsaklega hunda og hesta.

Hún spilar á píanó og flautu. Hún elskar náttúruna og er mikið úti við og telur að svo muni líka vera á Íslandi. Einnig fer hún út að hlaupa þrisvar í viku.

Hún er metnaðarfullur nemi með sérstakan áhuga á tungumálum, líffræði og læknisfræði en Jóhanna vill læra læknisfræði í framtíðinni.