Í lok ágúst 2023 mun AFS á Íslandi taka móti 28 erlendum skiptinemum sem koma til með að vera hér á landi í 10 mánuði.

Við tökum á móti umsóknum frá skiptinemum til 1. mars og erum að fara yfir þær umsóknir sem eru komnar. Við reynum eftir fremsta megni að koma nemum og lýsingum til skila hér á síðunni. Ef þið viljið fá upplýsingar um umsóknarferlið eða fá að skoða nema, ekki hika við að senda póst á: [email protected] eða [email protected]

Skiptinemarnir sem koma í ágúst eru á aldrinum 15-18 ára, ganga í skóla út um allt land og dvelja hjá fósturfjölskyldumog þar með láta draum sinn um skiptinám á Íslandi verða að veruleika.

Fósturfjölskyldur útvega nemunum fæði og húsnæði en annan kostnað greiðir neminn sjálfur, t.d. tómstundir og vasapening. AFS sér um að skrá nemann í skóla, greiðir skólagjöld og námsbækur og aðstoðar við aðlögun t.d. með námskeiðum.

Fósturfjölskyldur gera starf AFS mögulegt

Á hverju ári taka 10.000 fósturfjölskyldur, í 54 löndum þar sem AFS starfar, á móti skiptinemum. AFS hefur áratuga reynslu af nemendaskiptum þar sem samtökin hafa starfað í rúmlega 60 ár í fjölmörgum löndum í heiminum og fleiri þúsund skiptinemar og fósturfjölskyldur hafa tekið þátt í starfsemi AFS. Fjölmargar íslenskar fjölskyldur hafa þegar opnað heimili sitt og mæla eindregið með þeirri reynslu og hvetja fólk sem hefur áhuga á að kynnarst borgurum heimsins að bjóða skiptinema inn í líf sitt.

Allt sem þið þurfið er hjartarými, löngun til að læra eitthvað nýtt og sveigjanleika. 

Þeir sem hafa áhuga á nánari upplýsingum geta haft samband við skrifstofu AFS á Íslandi í síma: 552-5450 eða á [email protected]

Untitled design (3)

Gorya (2006)

Aphisamai eða Gorya er 16 ára tælensk borgarstelpa frá Bangkok. Nafnið hennar þýðir gras á tælensku en hún er með ofnæmi fyrir frjókornum og rykmaurum. Hún er einkabarn foreldra sinna og spilar á trommur í hljómsveit, tónlist er hennar aðaláhugamál. Það er jafnframt sameiginlegt áhugamál fjölskyldunnar. Hún elskar líka öll dýr og á hund, fugla og fiska. Gorya er brosmild, fyndin og metnaðarfull stelpa sem hefur gaman að því að hjálpa til og bjóða sig fram í allskyns samfélagsverkefni. Henni þykir Ísland fallegur staður sem hún sá í bíómynd og langar að sjá hvort að íslenskt landslag sé í alvöru svona töfrandi. Hún er byrjuð að læra smá Íslensku með því að nota smáforrit í síma en getur ekki beðið eftir að læra Íslensku af innfæddum.

Untitled design (7)

Marcela (2005)

Marcela er 18 ára pólsk stelpa frá bænum Bydgoszcs sem elskar að ferðast um heiminn og að kynnast nýjum menningarheimum. Marcela er hjálpsöm, opin og glaðlynd stúlka. Marcela er frekar feimin við fyrstu kynni en nýtur þess að eiga samskipti við þá sem hún kynnist. Hún á ekki systkini, en á bæði hund og kött. Hún elskar öll dýr, þess vegna velur hún að vera grænmetisæta en íhugar að borða kjöt á meðan skiptinemadvöl stendur.
Allt sem snýr að tungumálum, ferðalögum og dýrahaldi grípur athygli hennar og hún hefur ferðast mikið með fjölskyldu sinni hingað til. Hana dreymir um að upplifa nýja menningarheima sem eru henni ókunnir og langar þess vegna að nýta tækifærið og rækta sjálfa sig fjarri heimahögum.

yuraC

Yura (2006)

Yura er 17 ára japönsk stelpa frá bænum Toyanaka og er yngst af á heimilinu en hún á einn eldri bróður sem er háskólanemi. Yura er brosmild og félagslynd stúlka sem hefur gaman að því að kynnast nýju fólki. Yura borðar helst ekki kjöt en nýtur þess að borða mjólkurvörur og fisk. Hún talar einstaklega góða ensku og lærir hana af kappi samhliða námi sínu. Hún er mikill leiklistar unnandi og hefur leiklistarhópurinn hennar sett marga söngleiki á svið sem flestir eru settir upp á ensku. Íþróttir eru ekki að hennar skapi en hún nýtur þess þó að fara í langan göngutúr í náttúrunni og hún hlakkar til að njóta Íslenskrar náttúru.
Ísland varð fyrir valinu, því ástríða hennar liggur í jafnrétti kynjanna og umhverfismálum, en hún hefur heyrt af árangri Íslendinga í kynjajafnrétti. Hana langar líka að upplifa íslenska menningu og hvernig hún er öðruvísi en menning Japana.

kaonC

Kaon (2006)

Kaon er 16 ára japönsk stelpa frá bænum Inabe-Shi og er yngst af þremur systkinum og saman eiga þau lítinn hund. Kaon býr þó á heimavist og kemst ekki út að labba með hundinn sinn eins oft og hana langar. Hún stundar körfubolta af kappi og hefur mikinn áhuga á íþróttum. Hana langar að prófa að æfa einhverja áhugaverða íþrótt á Íslandi. Kaon er glaðvær, ábyrgðarfull og forvitin stelpa sem hefur gaman að því að læra eitthvað nýtt.
Tækifæri til þess að sjá norðurljósin var ástæðan að Ísland varð fyrir valinu og hana dreymir um að sjá þau. Ljósmyndun er líka eitt af hennar áhugamálum og er Ísland kjörinn staður til þess að taka myndir af fallegum náttúruperlum. Að fá tækifæri að upplifa annan menningarheim er mjög mikilvægt fyrir hana.

AinaC.

Aina (2006)

Aina er 17 ára stúlka sem kemur frá borginni Omura-shi í Japan. Hún býr með foreldrum sínum en hún er einkabarn þeirra. Ainu gengur vel í skóla og hún tekur námið alvarlega. Aina hefur margvísleg áhugamál en það sem mætti helst nefna væri að vera með vinum sínum og hlusta á K-Pop. Hún hefur líka mjög gaman að því að kynnast nýju fólki. Aina hlakkar til að kynnast nýrri fósturfjölskyldu á Íslandi og kynnast nýrri menningu og tungumáli.

fanny

Fanny (2006)

Fanny er 17 ára frönsk stelpa frá bænum Romans sur Isere, hún er miðjubarn og á eldri og yngri systur. Hún kemur úr stórri fjölskyldu og myndi því vera sérstaklega spennt fyrir því að vera hjá fjölskyldu þar sem eru mörg börn. Hún er feiminn, þolinmóð ung stúlka sem getur reytt af sér brandara þegar tækifæri gefst til.. Hún leggur mikið á sig til að ná árangri í skólanum og hefur líka spilað á píanó í 8 ár. Hún er ekki mjög mikil íþróttamanneskja en finnst samt gaman í badminton og á hestbaki.
Hún hlustar mikið á tónlist, les skáldsögur, glæpasögur og anime teiknimyndasögur. Fanny hlakkar mikið til að koma til Íslands, kynnast nýrri menningu og fá tækifæri til að þroskast í gegnum þá dýrmætulífsreynslu sem skiptinemadvöl er.

zoeC

Zoé (2007)

Zoé er 15 ára frönsk stelpa frá bænum Lissieu. Hún býr með foreldrum sínum og á eina systur sem er eldri en hún. Zoé leggur hart að sér í skólanum og finnst erfitt ef að hún nær ekki mjög góðum árangri. Zoe er feimin, róleg en umfram allt jákvæð og skemmtileg stelpa sem hefur gaman að því að fá aðra til að hlæja. Hún hefur mikinn áhuga á list og teiknar mikið og málar allskyns listaverk. Hún hefur líka gaman af að lesa glæpa- og spennusögur. Hún nýtur félagskaps vina en hefur jafnframt þörf fyrir að eiga tíma með sjálfri sér annað slagið. Zoé hlakkar til að upplifa nýja menningu og umhverfi sem hún hefur ekki upplifað áður.

ninoC

Nino (2007)

Nino er 15 ára gamall strákur sem kemur frá borginni Angers í vestur Frakklandi. Hann býr með foreldrum sínum og á tvö eldri systkini. Nino gengur vel í námi og hefur mestan áhuga á að læra samfélagsfræði eða hagfræði þegar hann verður eldri. Helstu áhugamál hans eru klettaklifur, tón-og myndlist. Nino er lýst sem umburðarlyndum, þolinmóðum og ábyrgðarfullum dreng sem á mjög auðvelt með að eignast vini. Hann hlakkar mikið til að koma til Íslands með bros á vör, góða skapið og kynnast fósturfjölskyldu og skólafélögum. 

elenaC

Elena (2008)

Elena er 15 ára stelpa sem kemur frá Vínarborg. Hún býr með móður sinni og eldri bróður og í augnablikinu skiptinema frá Tælandi að auki. Elena er mikil íþróttastelpa en hefur líka mikinn áhuga á ferðalögum, sólkerfinu og geimnum, dýrum og amerískum fótbolta. Hún æfir amerískan fótbolta og hefur góðan möguleika á að komast í unglinga-landslið Austurríkis. Elenu gengur vel í skólanum og uppáhalds fögin hennar eru enska og íþróttir. Elena er grænmetisæta en er opin fyrir því að prófa ansi margt þegar hún er í nýju landi. Hún hefur ferðast mjög mikið með fjölskyldunni sinni en hlakkar sérstaklega til að koma til Íslands, kynnast menningunni og fólkinu sem hér býr.

gaiaC

Gaia (2006)

Gaia er 16 ára gömul stelpa sem kemur frá Ítölsku borginni Parma. Hún á tvö heimili en á mjög gott samband við báða foreldra og systur sína. Gaiu finnst skólinn oft á tíðum erfiður enda er ítalska skólakerfið ekki þekkt fyrir að vera með minnsta álagið. Hún hefur samt gaman að skólanum og hennar uppáhalds fög eru stærðfræði, eðlisfræði og mannfræði.  Hún hefur fjölmörg áhugamál og þar mætti helst nefna borðspil, tölvuleiki, ferðalög, lestur og kvikmyndir. Gaia hlakkar mikið til að koma til Íslands, læra nýtt tungumál, kynnast nýrri menningu og umfram allt eignast Íslenska fósturfjölskyldu.

website format (1)

Thierry (2006)

Thierry er 16 ára strákur sem kemur frá borginni Sarre á Ítalíu. Hann er einkabarn foreldra sinna sem hann á mjög gott samband við. Hann lætur námið sitt yfirleitt ganga fyrir en á þó önnur áhugamál sem fá líka eitthvað pláss í lífi hans. Þar mætti helst nefna lestur, tölvuleiki og borðspil. Hann er einnig góður sundmaður og keppir í checkers sem líkist skák. Thierry er áhugasamur, glaður og mikill húmoristi. Hann hlakkar til að koma til Íslands og kynnast menningunni, smakka Íslenskan mat og læra nýtt tungumál. 

laraC

Lara (2006)

Lara er 16 ára gömul og kemur frá borginni Verona á Ítalíu. Lara býr með foreldrum sínum og systur. Henni gengur vel í skólanum og uppáhalds fögin hennar eru enska, spænska og þýska. Lara hefur mikinn áhuga á íþróttum og keppir reglulega í hópfimleikum. Önnur áhugamál eru lestur, tónlist og að eyða tíma með vinum sínum. Vinir og fjölskylda Löru lýsa henni sem orkumikilli, þrjóskri og skemmtilegri stelpu. Lara vonast til að dvölin á Íslandi muni hjálpa henni að uppgötva aðra menningu en hennar eigin og að hún geti bætt íslensku kunnáttu við tungumála listann sinn.

sofiaC

Sofia (2007)

Sofía er 15 ára stelpa sem býr með foreldrum sínum og tveimur eldri bræðrum í borginni Concepción í Sílé. Hún er mikil íþróttastelpa og uppáhalds íþróttirnar hennar eru körfubolti, tennis, hnefaleikar, crossfit en fótbolti er aðal íþróttin hennar. Hún stefnir á að læra eitthvað tengt heilbrigðisgeiranum og þá kemur það sér vel hvað henni gengur vel í skólanum og þá sérstaklega í vísindagreinum. Hún hlustar mikið á tónlist og hefur gaman að kvikmyndum og tölvuleikjum. Sofia er indæl, brosmild, þrautseig og á mjög auðvelt með að eignast vini í nýjum aðstæðum. Hún hlakkar til að koma til Íslands og kynnast nýrri menningu og læra nýtt tungumál.

moiraC

Moira (2005)

Moira er 17 ára stúlka sem kemur frá borginni Champion í Belgíu. Hún býr með foreldrum sínum, þremur eldri systrum og kettinum sínum Pocky. Moira sinnir námi sínu vel og er eins og er í heimavistarskóla og er að læra hagfræði og tungumál. Hún hefur mörg áhugamál og mætti þar helst nefna lestur, bakstur, bíóferðir, sund og skíði. Moira er félagslynd, opin og skemmtileg stelpa sem myndi helst vilja vera hjá fjölskyldu þar sem eru börn/unglingar á heimilinu. Það væri ekki verra ef að þar væru líka gæludýr. Áhuginn á Íslandi kviknaði í stuttri Íslands heimsókn sem fjölskyldan fór í. Nú vill Moira fara út fyrir Gullna hringinn og kynnast menningu og tungumáli landsins.

ninaC

Nina (2006)

Nina er 17 ára og  kemur frá borginni Gent í Belgíu. Hán býr með móður sinni og hundinum sínum Tripsie. Ninu gengur vel í skóla og hefur margvísleg áhugamál. Hán málar mikið, hefur leikið mikið á sviði og verið í sirkus. Hán finnst japanskt anime líka mjög áhugavert. Hveitióþol (ekki glúteinóþol) hefur plagað Ninu en hún passar upp á það sjálf að borða ekki mat inniheldur hveiti.. Hán hlakkar mest til að upplifa það hvernig er að búa í öðru landi og upplifa aðra menningu en hán þekkir. Hán er líka spennt að vita hvernig það er að vera altalandi á öðru og framandi tungumáli.

elisasC

Elisa (2007)

Elisa er 16 ára stúlka frá litlu þorpi í þýskumælandi-Sviss. Hún býr með foreldrum sínum og tveimur yngri bræðrum. Elisa hefur spilað á klarinett í mörg ár og er algjör tónlistarunandi, enda spilar hún í stórri hljómsveit sem spilar bíómyndatónlist. Henni finnst gott að hreyfa sig, mörgu sinnum í viku. Vegna þess hvað henni þykir vænt um dýr þá borðar hún ekki kjöt, það setur samt ekki strik í reikninginn hvort það sé eldað kjöt á heimilinu sem hún kemur til með að vera á. Hún er samt ekki á móti fisk.

LiaC

Lia (2007)

Lia er 16 ára stúlka sem kemur frá Fribourg í Sviss. Lia býr með foreldrum sínum og þremur systkinum. Liu gengur vel í skóla og uppáhalds fögin hennar eru enska, latína, tónlist og íþróttir. Lia hefur mörg áhugamál og mætti þar helst nefna lestur, söng og dýr. Fjölskyldan hennar á mörg dýr og hún hjálpar til við að sjá um þau. Hún er ábyrgðarfull, áhugasöm og opin manneskja sem gengur vel að eignast vini. Liu hefur lengi dreymt um að ferðast til Íslands og sjá landslagið, læra tungumálið og smakka matinn sem er svo allt öðruvísi en það sem hún er vön. Lia myndi vilja vera hjá fjölskyldu þar sem eru systkini á heimilinu.

maraC

Mara (2007)

Mara er 15 ára þýsk stelpa sem er væntanleg núna í haust. Hún er miðjubarn af þremur systkinum og á 3 kisur. Ef það eru gæludýr og systkini á heimilinu hennar á Íslandi væri það algjört æði. Hún elskar að prjóna, er mikill tónlistarunnandi ,  hefur leikið mikið á sviði og hefur spilað á píanó  í mörg ár, það væri mikill kostur ef það væri píanó hjá eitthverjum hérna á Íslandi. Mara borðar helst ekki kjöt en nýtur þess að borða mjólkurvörur og fisk. Hún elskar að baka með mömmu sinni, og getur eldað sinn eigin mat. Ísland er búið að vera lengi á listanum hjá henni að heimsækja og hlakkar hana til að sjá hvað allir eru hjartahlýir og landið fallegt.

website format (4)

Ada-Sophie (2007)

Ada Sophie er 16 ára frá Þýskalandi og býr í sveit með fjölskyldu sinni sem eru foreldrar hennar, tvær systur, einn hundur, tveir kettir og fimm hestar. Hún er minnug, virðingarfull og umburðarlynd stúlka. Hún hefur mjög áhugamál, þar á meðal að spila fiðlu, píanó, dansa ballett, hestaferðir, hjóla, skokka og ganga með hund, elda, baka og föndra. Hún hefur líka ástríðu fyrir umhverfisvernd, svo hún vill fara í vistvænt ár í Afríku eða Indlandi eftir að hafa útskrifast úr menntaskóla. Að auki vill hún verða lögfræðingur í framtíðinni vegna þess að hún trúir á réttlæti. Hún er hrifin af einstöku íslensku landslagi, hestum og tungumálinu og því hefur hún áhuga á að koma til Íslands sem skiptinemi. Hún er alltaf að skoða heiminn og nýja menningu og hlakka til ævintýrsins.

website format (2)

Seraphina (2007)

Seraphina er 15 ára stúlka sem kemur frá Butzbach í Þýskalandi. Hún býr með foreldrum sínum og á þrjú systkini og þrjá ketti. Hún kemur frá “AFS” fjölskyldu en þau hafa bæði verið fósturfjölskylda og sent frá sér skiptinema áður. Seraphina stendur sig vel í skólanum og hefur margvísleg áhugamál. Þar mætti helst nefna handbolta, hestamennsku, lestur og að skrifa eigin sögur. Í framtíðinni myndi hún vilja læra lögfræði eða blaðamennsku. Hún myndi vilja æfa handbolta á Íslandi en er líka opin fyrir nýjungum. Hún heyrði um Ísland fyrir nokkrum árum og hefur síðan þá dreymt um að koma hingað, njóta náttúrunnar og kynnast landi og þjóð. 

johanneC

Johanne (2006)

Johanne er 17 ára stelpa sem kemur frá Noregi. Hún býr í litlum bæ með móður sinni og hundinum sínum. Systkini hennar eru eldri en hún og eru nánast flutt að heiman. Johanne gengur mjög vel í skóla og hún tekur námið alvarlega. Hún er sjálfstæð, kurteis og brosmild stúlka sem hefur margvísleg áhugamál. Helst mætti nefna hestamennsku en hún hefur verið mikið á hestbaki síðustu ár og myndi ekki slá hendinni á móti því að prófa að kynnast Íslenska hestinum. Hún hlustar líka mjög mikið á tónlist og hefur gaman að alls konar sjónvarpsþáttum. Johanne er spennt að kynnast íslenskri menningu, læra tungumálið og upplifa íslenska náttúru.

website format

Anezko (2006)

Anezka er 15 ára tékknesk stelpa, og er miðjubarn þriggja systra. Hún býr með foreldrum sínum og yngri systur en eldri systirin er flutt að heiman. Hún vill hafa mikið að gera og reynir alltaf að vera hún sjálf. Hún er brosmild, fyndin og ákveðin ung stelpa.  Hún stendur sig vel í skólanum og uppáhalds fögin hennar eru tónlist, stærðfræði og eðlisfræði. Anezka hefur mörg áhugamál en þau sem eiga hug hennar allan eru tónlist og skátarnir. Hún er virkur skátaforingi og sér fyrir sér að skoða skátastarfið á Íslandi ef tækifæri gefst.  Fyrir hana er mikilvægt að fá að spila á píanó og henni þætti vænt um að komast í sund. Vinkonur hennar sjá bara einn galla við hana og það er ofnæmi fyrir túnfíflum sem er uppáhalds blómið þeirra

website format (3)

Alper (2007)

Alper er 16 ára drengur frá Tyrklandi. Hann býr með móður sinni og systur. Þeim finnst gaman að horfa á kvikmyndir saman um helgar. Hann er vinnusamur og ábyrgur strákur sem finnst gaman að deila heimilisstörfum með móður sinni, sérstaklega eldamennsku. Hann hefur mörg áhugamál eins og að skrifa, spila skáta, spila tölvuleiki, hjóla og læra nokkur ný tungumál. Draumur hans er að verða vélrænn engernieer svo hann er að læra um 3D líkanagerð og kóðun. Einnig finnst honum gaman að fræðast um sögulega staði og sögulegar rústir eða steingervinga. Hann er mjög forvitinn um mismunandi menningarlíf og menntakerfi og kynnist nýju fólki.

USA_Willem2

Willem (2005)

Willem er 18 ára strákur frá Bandaríkjunum þar sem hann gengur í menntaskóla. Hann er yngstur fjögurra systkina en hann er nú eina systkinið sem býr enn í foreldrahúsum. Hann nýtir tíma sinn vel, bæði í námi, íþróttum og tómstundastarfi. Hann er afburðagóður nemandi og hefur mikinn áhuga á námi sínu. Hann hefur gaman af fótbolta og skíðaíþróttum eins og gönguskíðum, svigskíðum og skíðastökki. Willem er brosmildur, opinn og ævintýragjarn strákur sem hefur gaman að því að kynnast nýju fólki.

Hann langar að upplifa heiminn á sínar eigin spýtur og vill láta reyna á það að vera í nýju landi þar sem hann skilur ekki tungumálið og menningin er framandi. Enda er hann óhræddur að takast á við nýjar áskoranir.

Chloe

Chloe (2007)

Chloe er 15 ára stúlka frá Bandaríkjunum þar sem hún býr með foreldrum sínum en eldri bróðir hennar er farinn í háskóla. Hún hefur mörg áhugamál og má þá helst nefna blak, sund, fjallgöngur, hestamennsku og dýr yfir höfuð.

Hún er kaþólsk og myndi vilja eiga kost á að fara í kirkju ef það er möguleiki. Chloe má ekki borða neitt sem inniheldur glúten, en hún veit sjálf hvað má borða og hvað ekki. 

Chloe er feimin, forvitin og ábyrgðarfull stúlka en alltaf til í ævintýri. Chloe stefndi á það að fara í skiptinám frá 7 ára aldri og var búin að kynna sér mörg lönd áður en Ísland varð fyrir valinu. Hún vonast til þess að með dvölinni á Íslandi stígi hún út fyrir þægindarammann og læri nýtt tungumál og hún hlakkar mikið til að smakka íslenska kjötsúpu!

Upplýsingar um fleiri nema koma von bráðar