Árið 2009 hóf stjórn AFS á Íslandi undirbúning að stofnun styrktarsjóðs til að styðja við bakið á ungu fólki með áhuga á að kynnast öðrum menningarheimum. Eftir nokkra undirbúningsvinnu var samþykkt á aukaaðalfundi AFS þann 20. febrúar 2013 að stofna sjálfseignarstofnunina Hollvini AFS á Íslandi. Í framhaldi var stofnfundur Hollvina haldinn í Þjóðmenningarhúsinu þann 21. mars 2013.

Stofnfélagar voru alþjóðlegu fræðslusamtökin AFS á Íslandi, sem starfað hafa á Íslandi frá árinu 1957, og 36 einstaklingar sem voru meðlimir í samtökunum og höfðu tekið þátt í starfi þeirra á einn eða annan hátt. Síðan hafa fleiri Hollvinir bæst í hópinn, en þar að auki eru skráðir nokkrir styrktarfélagar sem veita stofnunni fjárframlög.

Stjórn Hollvina

Í stjórn Hollvina AFS á Íslandi sitja þrír fulltrúar, tveir kjörnir á aðalfundi stofnunarinnar og einn tilnefndur af stjórn AFS á Íslandi. Núverandi stjórn skipa : Erlendur Magnússon fjárfestir, Guðrún Björk Bjarnadóttir framkvæmdastjóri og Þorvarður Gunnarsson löggiltur endurskoðandi.

Úthlutun sjóðsins

Tekjur stofnunarinnar, sem nota skal til úthlutunar styrkja, eru arður af stofnsjóði, árlegt framlag AFS á Íslandi til stofnunarinnar, árgjald hollvina ásamt gjöfum og öðrum frjálsum framlögum til styrktar stofnuninni. Stofnunin úthlutar að lágmarki árlega og gerir það í samstarfi við skrifstofu AFS á Íslandi.

Megintilgangur styrkjaveitinganna er að aðstoða nemendur frá efnaminni heimilum, en þó er einnig heimilt að veita styrki til verðandi skiptinema sem hafa sýnt afbragðs árangur á ýmsum sviðum, s.s. í námi, listum eða íþróttum. Öllum fyrirspurnum varðandi Hollvini AFS á Íslandi má beina til skrifstofu AFS: [email protected]