Tilgangur Hollvina er að styrkja nemendur og fjölskyldur til þátttöku í nemendaskiptum AFS styrkja rannsóknir á samskiptum fólks af ólíkum menningaruppruna svo og  verkefni sem hafa það að markmiði að stuðla að nemendaskiptum og auka menningarskilning fólks af ólíkum menningaruppruna.

Árið 2009 hóf stjórn AFS á Íslandi undirbúning að stofnun styrktarsjóðs til að styðja við bakið á ungu fólki með áhuga á að kynnast öðrum menningarheimum. Eftir nokkra undirbúningsvinnu var samþykkt á aukaaðalfundi AFS þann 20. febrúar 2013 að stofna sjálfseignarstofnunina Hollvini AFS á Íslandi. Í framhaldi var stofnfundur Hollvina haldinn í Þjóðmenningarhúsinu þann 21. mars 2013.

Stofnfélagar voru alþjóðlegu fræðslusamtökin AFS á Íslandi, sem starfað hafa á Íslandi frá árinu 1957, og 36 einstaklingar sem voru meðlimir í samtökunum og höfðu tekið þátt í starfi þeirra á einn eða annan hátt. Síðan hafa fleiri Hollvinir bæst í hópinn, en þar að auki eru skráðir nokkrir styrktarfélagar sem veita stofnunni fjárframlög.

Stjórn Hollvina

Í stjórn Hollvina AFS á Íslandi sitja þrír fulltrúar, tveir kjörnir á aðalfundi stofnunarinnar og einn tilnefndur af stjórn AFS á Íslandi. Núverandi stjórn skipa : Erlendur Magnússon fjárfestir, Guðrún Björk Bjarnadóttir framkvæmdastjóri og Þorvarður Gunnarsson löggiltur endurskoðandi.

Úthlutun sjóðsins

Tekjur stofnunarinnar, sem nota skal til úthlutunar styrkja, eru arður af stofnsjóði, árlegt framlag AFS á Íslandi til stofnunarinnar, árgjald hollvina ásamt gjöfum og öðrum frjálsum framlögum til styrktar stofnuninni. Stofnunin úthlutar að lágmarki árlega og gerir það í samstarfi við skrifstofu AFS á Íslandi. Upplýsingar um styrki má finna hér.

Megintilgangur styrkjaveitinganna er að aðstoða nemendur frá efnaminni heimilum, en þó er einnig heimilt að veita styrki til verðandi skiptinema sem hafa sýnt afbragðs árangur á ýmsum sviðum, s.s. í námi, listum eða íþróttum. Öllum fyrirspurnum varðandi Hollvini AFS á Íslandi má beina til skrifstofu AFS: [email protected]