Hugmyndafræði AFS gengur út á að gera heiminn betri í gegnum samskipti og samkennd. Með því að mennta ungt fólk í gegnum skiptinám í framandi menningu öðlast það aukinn skilning á fólki með ólíkan bakgrunn, eykur umburðarlyndi sitt og fær tilfinningu fyrir því hvað felst í því að vera meðlimur í alheimssamfélagi. Í gegnum nám AFS eru skiptinemar hvattir til þess að taka virkan þátt í samfélaginu sínu, bæði á meðan dvölinni í skiptinemalandinu stendur og eftir heimkomu. Saman stuðlar þetta að því að þátttakendur AFS öðlast aukna meðvitund um hnattræn málefni og öðlast hvatningu og sjálfstraust til að láta gott af sér leiða.

​Með þetta í huga ætla Hollvinir AFS á Íslandi að veita 60% styrk í skiptinám í ársdvöl til Ítalíu veturinn 2020-2021. Styrkurinn er ætlaður til að efla ungmenni til aukinnar vitundar og samfélagsvirkni.

Til að sækja um þarft þú að:
1) Skila inn frumumsókn um skiptinám í ársdvöl til Ítalíu og greiða 12.000 kr umsóknargjald
2) Velja þann styrk sem þú sækist eftir undir liðnum „styrkir“ á umsóknarsíðunni
3) Svara 3 ritgerðarspurningum og 1 styttri spurningu

Allir þeir sem uppfylla skilyrði fyrir skiptinám til Ítalíu geta sóst eftir styrknum.

Umsóknarfrestur er 1. febrúar 2020 kl. 10:00.

Eftir umsóknarfrest fer stjórn Hollvina AFS á Íslandi yfir umsóknir, boðar í viðtöl, og tilkynnir stuttu síðar um styrkhafa.

Með því að þiggja leiðtogastyrk Hollvina AFS á Íslandi skuldbindur þú þig til að taka þátt í sjálfboðaliðanámskeiði AFS á Íslandi eftir heimkomu úr skiptinámi, og að skrifa stutta greinagerð um upplifun þína í skiptináminu fyrir Hollvini AFS.

Athugið að styrkhafi er ekki gjaldgengur fyrir hefðbundinn styrk frá Hollvinum AFS á Íslandi samhliða styrk leiðtoga framtíðarinnar. Umsækjendum er þó frjálst að skila einnig inn umsókn fyrir hefðbundinn styrk til Hollvina og verða umsóknir þeirra sem ekki hljóta styrk leiðtoga framtíðarinnar þá teknar til greina.