Nýr framkvæmdarstjóri AFS skellti sér á fund í höfuðstöðvum AFS International í New York. Þetta var í fyrsta skiptið sem undirrituð fer á alþjóðaskrifstofu okkar og þótti ansi merkilegt að fá að hitta alla og skoða skrifstofurými okkar þar.

Venjan er að allir nýir framkvæmdarstjórar fari á námskeið og kynningu í boði AFS INT. Í fyrsta skiptið er þó aðeins breytt fyrirkomulag og mæta nýjir framkvæmdastjórar nú einir á sérsniðna fundi með öllum deildum skrifstofunnar. Dagskráin var pökkuð og dagarnir vel nýttir. Ég var glöð að kannast vel við flesta ferla AFS og hafa unnið eða heyrt af flestu því fólki sem ég hitti. Það var pínu krefjandi en virkilega gaman að fá að kynna sér vel starfsemina þar ytra. Ég fór til dæmis á fundi með markaðsdeildinni, fjármáladeildinni, deild deildaruppbyggingar og þróunar sjálfboðaliða, prógrömmum, áhættustýringu og svo fékk ég auðvitað tíma með forsetanum okkar honum Daníel Obst. Já! Þetta er ekki einusinni allir fundirnir.

Við gleymum því stundum í starfi okkar sem sjálfboðaliðar, hvort sem við höldum reglulega skólakynningar, erum tengiliðir fyrir erlenda nema eða erum starfsmenn í Skipholti að á bakvið okkur er heill turn í NYC. Það var heilt yfir mjög gott að hitta allt þetta góða fólk í turninum. Það stækkaði allavega AFSið mitt. AFSið er nefnilega RISA stórt og í turninum er fólk sem vinnur fyrir okkur, hvort sem það er vegna stuðnings við nema erlendis, að þjálfa og halda námskeið fyrir sjálfboðaliða eða árlega risa ráðstefnu AFS eða að sinna hagnýtum málum eins og  markaðs- og fjármálum. Allt er þetta mjög fært fólk sem vinnur að hugmyndafræði okkar á mismunandi flötum og vinna sína vinnu svo við getum sinnt okkar staðbundna starfi betur. Við þurfum að vera dugleg að nýta okkur það sem turninn hefur fram að færa og vonandi verður það ennþá auðveldara og aðgengilegra með tilkomu Workplace – sem er nýji samskiptamiðillinn sem AFS notar.

Sólveig Ása Tryggvadóttir,
framkvæmdarstjóri AFS á Íslandi