Nú í lok febrúar hélt Reykjavíkurdeild sjálfboðaliðanámskeið í Skipholtinu þar sem nýir sjálfboðaliðar tóku þátt í hópefli og fengu góða kvöldstund af AFS 101. Okkar nýjasti sjálfboðaliðahópur fékk þjálfun í hópstjórnun, meðferð trúnaðarupplýsinga og veigamikla kynningu á starfinu svo eitthvað sé nefnt. Þess á milli nýttum við tækifærið og kynntumst hópnum yfir pizzu og góðum sögum.

Okkur finnst mikilvægt að nýir sjálfboðaliðar fái góðan stuðning þegar þeir stíga sín fyrstu skref í sjálfboðaliðastarfinu og erum við alltaf að velta fyrir okkur hvar við getum gert betur á því sviði. Því ætlum við í fyrsta skiptið (allavega svo lengi sem greinarhöfundur man eftir starfinu) að innleiða mentorkerfi fyrir nýja sjálfboðaliða og mun það verkefni standa fram á haust. Nýir sjálfboðaliðar hafa nú fengið reynslumikla sjálfboðaliða sem mentor og erum við spennt að sjá hvernig gengur og vonum við svo sannarlega að þetta sé eitthvað sem sé komið til að vera.

AFS er frábær vettvangur til þess að rækta sína hæfileika, taka áskorunum, gera mistök og læra af þeim. Ég vona að starfið reynist nýjum sjálfboðaliðum þar jafn vel og raunin var hjá undirrituðum og býð þau hjartanlega velkomin í AFS á Íslandi.

Texti: Úlfur Atli Stefaníuson, Formaður Reykjavíkurdeildar AFS