Heil og sæl!

Ég heiti Ásdís Björk og er nýjasti starfsmaður skrifstofu AFS, en í febrúarbyrjun hóf ég störf sem verkefnastjóri.

Ég kynntist AFS fyrst 8 ára gömul og ákvað þá strax að þetta væri eitthvað fyrir mig. Það varð svo að árið 2010, þá 17 ára, fór ég í skiptinám til Venesúela. Ég átti yndislega dvöl og enn betri fjölskyldu sem ég er enn í góðu sambandi við í dag.

Eftir heimkomu úr skiptináminu gerðist ég sjálfboðaliði fyrir AFS á Íslandi og kom sterk inn í kjarnastarfsemi Reykjavíkurdeildar; tók viðtöl, skólakynningar, skipulagði og þjálfaði á námskeiðum, ásamt fleirum af öllum þeim fjölbreyttu verkefnum sem sjálfboðaliðar AFS halda á lofti. Eins sat ég í stjórn Reykjavíkurdeildar sem umsjónarmaður innlendra nema í tvö ár. Utan þessa hef ég tekið þátt í ýmsum alþjóðlegum verkefnum innan AFS, t.a.m. sem þátttakandi og meðlimur stuðningsteymis á VSS og sem hluti af íslenska teyminu í Chapter Exchange á Íslandi 2012 og í Belgíu 2013. Nýjasta verkefnið sem ég á hlut í að skipuleggja er svo glænýtt Chapter Exchange í Serbíu sem við krossum alla putta og tær fyrir að fá jákvætt svar við styrkumsókn fyrir! Svo já, það má með sanni segja að AFS hafi gengt stóru hlutverki í mínu lífi.

En er líf utan AFS? Jú jú, margur hefur nú efast um það. En jú, ég hef svo sem líka átt mér líf á öðrum sviðum. Frá því er svona helst að segja að ég er menntaður stjórnmálafræðingur, auk þess, líkt og margir Íslendingar, hef ég starfað á hinum ýmsu sviðum þá helst sem ferðaráðgjafi, í álframleiðslu og sem búðarkona. En ef það er eitt sem ég veit í þessum málum þá er það þó það að það eru algjör forréttindi að fá að starfa við áhugamálið sitt og fyrir hugsjón sem maður brennur fyrir. Það eru því virkilega spennandi tímar framundan og hlakka ég til að halda áfram að vinna að því góða starfi sem AFS vinnur að.

____________________
Ásdís Björk Gunnarsdóttir, Verkefnastjóri AFS á Íslandi