Aðalfundur Hollvina AFS á Íslandi fór fram 11. mars sl. í húsnæði AFS í Skipholti 50C.

Farið var yfir liðið starfsár.  Styrkveitingar voru afar litlar á árinu og námu einungis 300.000 kr., en til samanburðar námu styrkir árið á undan 2.875.000 krónum.  Þessi lága styrkupphæð endurspeglar hversu fáar umsóknir bárust um styrki.  Á þeim 5 árum sem Hollvinir hafa starfað hafa 45 nemar fengið styrki fyrir samtals 9.525.000 kr., auk þess að Hollvinir hafa styrkt rannsókn í menningarlæsi.

Reikningar Hollvina voru lagðir fram á fundinum.  Heildar eignir í lok árs 2018 voru 70,8 milljónir kr. og þar af var óráðstafað eigið fé 11,4 milljónir kr.  Bókfærður hagnaður ársins var 1,4 milljónir kr., en eftir að búið er að taka tillit til verðtryggingu stofnfjár lækkaði óráðstafað eigið fé um 466 þúsundir kr.  Þetta er í fyrsta sinn frá stofnun Hollvina að raunávöxtun er neikvæð og það þrátt fyrir að upphæð styrkja væri aðeins brot af því sem verið hefur síðustu ár.  Kemur þar ýmislegt til, svo sem erfiðleikar í rekstri AFS á Íslandi á liðnu ári, vandkvæði við innheimtu árgjalda sem nú hefur verið leyst úr, lækkun innlánsvaxta og óhagstæð ávöxtun hlutabréfa innanlands, hækkun fjármagnstekjuskatts og aukin verðbólga.  Ljóst er að Hollvinir þurfa að breyta fjárfestingastefnu sinni eigi eignir stofnunarinnar að ná að ávaxta sig, m.a. vegna þess að fjármagnstekjuskattur hérlendis leggst ekki aðeins á raunávöxtun heldur einnig á verðbólgu og því eru raunskattlagning fjármagns mjög há og getur jafnvel farið yfir 100% hækki verðbólga.  Mun stjórn Hollvina taka fjárfestingastefnuna til endurskoðunar nú í vor.

Árgjald Hollvina hefur verið 12.000 kr. á ári (1.000 kr. á mánuði) frá 2013.  Fundurinn samþykkti að hækka árgjaldið í 18.000 kr. á ári (1.500 kr. á mánuði) og kom sú breyting til framkvæmda 1. apríl.

Stjórn Hollvina er óbreytt frá fyrra ári og mynda stjórnina Guðrún Björk Bjarnadóttir, Þorvarður Gunnarsson og Erlendur Magnússon.

Eftir venjuleg aðalfundarstörf sagði Rosalie Rut Sigrúnardóttir, fyrrum styrkþegi, frá skiptinámi sínu í Minnestota 2017-18.  Var frásögn Rosalíe afar áhugaverð og skemmtileg.

Nánari upplýsingar um Hollvini AFS má finna hér.

Ef þig langar að gerast Hollinvinur AFS er þér bent á að hafa samband við [email protected]

Texti: Erlendur Magnússon, Formaður Hollvina AFS