Þann 21. Mars, var haldin Menningarhelgi AFS á Íslandi.  Þar voru 26 erlendir nemar og 8 sjálfboðaliðar sem hófu ferðina með forsetaheimsókn á Bessastaði, þar sem Hr. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, bauð okkur uppá pönnukökur og marsipan, ásamt kaffi og te.  Að hitta forseta þjóðar eins og Íslands var mjög einstök upplifun fyrir okkur öll, mest fyrir skiptinemana, það er ekkert sjálfsagt að vera boðinn í heimsókn hjá forsetanum í öðrum löndum. Eftir forsetaheimsóknina var farið aftur á skrifstofu AFS, og við fengum okkur kvöldverð.

Næsta dag, var lagt af stað með rútu, til Grundafjarðar, þar sem restin af menningar helginni var haldinn.   Á leiðinni til Grundafjarðar, stoppuðum við á Hákarlasafninu í Bjarnahöfn, þar fengu skiptinemarnir og sjálfboðaliðarnir að kynnast sögu hákarlaveiða, notkun á dýrinu, og almenn vísindi um hákarla hérlendis.  Að lokum, fengu skiptinemarnir og sjálfboðaliðarnir að smakka hákarl – fyrir suma var það viðbjóður en fyrir aðra lostæti. Seinna um kvöldið var landsleikur hjá Íslenska karla landsliðinu í fótbolta á móti Andorra, og það var mikil stemming meðal allra, og voru allir að lifa sig inní leikinn, fagnandi og hrópandi þegar Ísland skoraði.   Ísland að lokum vann leikinn gegn Andorra.

Daginn eftir var farið í skoðunarferð um Snæfellsnes.  Fyrst var farið að skoða Kirkjufell, hið fræga fjall Grundafjarðar, þar sem mörg þúsund manns koma ár hvert til að skoða þennan magnaða stað.  Við ætluðum að fara á Arnarstapa eftir Kirkjufell, en fjallavegurinn þangað var lokaður, og í staðinn fórum við til Ólafsvíkur. Í Ólafsvík var farið í sund og síðan snúið aftur til Grundafjarðar.  Það var mikið óveður sama dag og við gátum mjög lítið gert útaf því. Seinna meir var haldin talent show” eða hæfileikakeppni”, þar sem skiptinemar og sjálfboðaliðar sýndu sína hæfileika, allt frá dansatriðum til spunasýninga.  Flest allir tóku þátt í keppninni, og allir skemmtu sér vel við sýningaratriðin.

Morguninn eftir var sunnudagur og lögðum við þá af stað heim suður. Áður en við yfirgáfum Snæfellsnes var okkur boðið í kveðju partí hjá fósturfjölskyldu Ethans frá Malasíu. Ethan er búinn að vera hérlendis í svokölluðu PEACE prógrammi, í þrjá mánuði á Stykkishólmi hjá yndislegri fjölskyldu.  Það var sorgarstund þegar við kvöddum hann og við vonumst hjartanlega að hitta hann aftur.  Eftir að kveðja Ethan og Snæfellsnesið,lögðum við aftur af stað til Reykjavíkur, og helgin endaði þar.

Þessi helgi var mjög vel heppnuð og án hjálpar sjálfboðaliðanna hjá AFS hefði þetta ævintýri ekki getað orðið að veruleika.  Þetta var ógleymanleghelgi, og við vonum að sú næsta verður ennþá betri.

Texti og myndir: Friðrik Helgi Guðmundsson, Sjálfboðaliði Reykjavíkurdeildar AFS