„Að fara til Ghana hafði ekki verið á minni dagskrá sérstaklega. Tengdafjölskyldan mín frá Vestmannaeyjum hugsaði þó alltaf þangað með miklum söknuði og frá þeim lá þangað þráður sem var mest byggður á tilfinningum sem aldrei hafði slitnað í rúm þrjátíu ár. Á síðasta áratugi síðustu aldar hafði nefnilega komið til þeirra skiptinemi frá Ghana sem þau langaði alltaf að sækja heim. Skiptineminn hafði þó staldrað stutt við hjá tengdafólki mínu þar sem aðal-aðsetrið á Íslandi var hinum megin á landinu og heimsóknin til Eyja var einskonar tilbreyting frá hversdagslífinu þar. Mér skilst að hún hafi dvalið í Eyjum í þrjár vikur og kvatt með nokkrum trega.

Hér er mynd af allri fjölskyldunni í Ghana

Svo líða árin og önnur öld hófst. Einhverjir í fjölskyldunni höfðu alltaf í huga að fara og þegar þeir svo sameinuðu krafta sína og skipulögðu saman ferð til Ghana þá varð úr þessi 10 manna ferð, þar sem “mamma” og “pabbi” fóru fremst í flokki, dyggilega studd af börnum sínum og tengdabörnum, svo ekki sé minnst á skiptinemann sem tók opnum örmum á móti gömlu fjölskyldunni sinni. Sumir úr gömlu fjölskyldunni höfðu aldrei hitt umræddan skiptinema í eigin persónu þar sem þeir voru úti í námi á meðan á hinni stuttu dvöl stóð þarna um árið. Aðrir voru hreinlega ekki komnir í fjölskylduna og vissu því lítið. En það breytti ekki því að skiptineminn, Abena, tók á móti öllum eins og hún ætti í þeim hvert bein. Slík var upplifunin. Við sem ekki höfðum verið skiptinemar sjálf eða tekið að okkur skiptinema undruðumst hversu sterk þessi tengsl verða og hversu miklar tilfinningar eru á milli manna, þó tungumál og menning sé ólík frá fyrsta degi.

Í Ghana leið okkur ákaflega vel, heimsóknin var vel undirbúin af Abenu, sem hafði tekið sér frí frá flestum skyldum, en þær eru annars gríðarlega miklar og margslungnar, til að sinna okkur. Við ferðuðumst frá höfuðborginni Accra í suðri til norðurs og komum við í Mole þjóðgarðinum. Við hittum fjölskyldu og ástvini Abenu, nutum gestrisni fólksins sem vinnur með henni og kynntumst heimamönnum sem allir báru virðingu fyrir skiptinemanum okkar, enda óvenjulega hæfileikarík manneskja og vel metin í sínu heimalandi.

Abena að sýna okkur drykk frá Ghana

Það kom á óvart hversu sterkar tilfinningar fjölskyldan og skiptineminn höfðu náð að mynda fyrir 30 árum og hversu vel þær entust öllum. Umsvifalaust var maður orðinn ein systirin í hópnum. Ég held að menningin í Afríku sé meira umvefjandi en við eigum að venjast og algengt var að bláókunnugir menn kölluðu okkur bræður og systur. Eftir þessa reynslu á ég nýja systur í Afríku sem ætlar að heimsækja okkur fljótlega og við munum fylgjast með henni og fjölskyldunni hennar til æviloka með mikilli ánægju.“

_________________________
Eva María Jónsdóttir, tengdasystir fyrrverandi skiptinemans Abenu

Viltu vita meira um hvað felst í að vera fósturfjölskylda? Kynntu þér málið á AFS.is
~~
#AFSfjölskyldur #FósturfjölskylduvikaAFS #AFSfamily #AFSeffect