„Ég var skiptinemi á vegum AFS veturinn 1978-9 í Texas.

Mynd tekin á kveðjustund vorið 1979, ég var í miklum tilfinningarússíbana að kveðja þau og leggja af stað í stað í mikla ævintýraferð.

Ég var 18 ára og hafði ekki hugmynd um hvað ég var að fara út í. Aðlögunarhæfnin bjargaði mér og opinn faðmur Smith hjónanna og dóttur þeirra, svo mér fór fljótlega að líða vel á heimilinu og skólanum. Ég tengdist þeim mjög sterkum böndum sem enn eru mér afar mikils virði. Ég fór þangað aftur 1981 og mom og dad komu einu sinni í heimsókn til Íslands. Síðast hitti ég þau fyrir 10 árum þegar ég fór í brúðkaup eina barnabarnsins. Nú er dad látinn en við mom tölum oft saman í síma og skrifumst á, hún er mér afar kær, kenndi mér margt um umburðarlyndi og jákvæðni í samskiptum við fólk. Það er varla tilviljun að eitt aðaláhugamálið mitt er að flytja til Íslands listamenn!

Ég hef líka tekið virkan þátt í starfi AFS með því að vera stuðningsaðili fyrir skiptinema af og til og hýsti stúlku frá Maine í Bandaríkjunum einn vetur og hún er auðvitað uppáhalds stóra stelpan mín.

Það er enginn efi í mínu hjarta að við öll þurfum að vera virk í því að opna augu og hjörtu fólks fyrir því sem sameinar okkur frekar en aðskilur okkur. Þetta hef ég séð gerast svo ótal mörgum sinnum í starfi AFS og er alltaf að staglast á því á marga ólíka vegu.

„Walk Together, Talk Together“ var slagorðið AFS

Í lok júní tek ég á móti 20 „krökkum“ sem ég kynntist í Texas og voru þar í sömu sporum og ég. Þau koma víðsvegar að og við ætlum að halda uppá að við vorum í rútuferðalagi saman í 2 vikur fyrir 40 árum síðan! Ég hlakka alveg ROSALEGA mikið til!

Ég er endalaust þakklát AFS og fjölskyldunni minni í Texas.“

 

________________________
Alda Sigurðardóttir, fyrrverandi skiptinemi í Texas, USA, 1978/79

Viltu vita meira um hvað felst í að vera fósturfjölskylda? Kynntu þér málið á AFS.is
~~
#AFSfjölskyldur #FósturfjölskylduvikaAFS #AFSfamily #AFSeffect