„Við búum á Ísafirði og eigum von á henni Noellu frá Frakklandi í ágúst. Hún verður hjá okkur í 10 mánuði.

Af hverju ákváðum við að taka á móti skiptinema?

Aðalástæðan er auðvitað sú að það hafa allar fjölskyldur gott af því að spegla sig í reynslu og uppruna annarra. Fá nýtt sjónarhorn á hlutina. Deila gildum sínum með einstaklingi sem kemur úr ólíku umhverfi, með ólíkan bakgrunn. Það þroskar mann.

Noella kemur frá frönsku Ölpunum

En svo erum við líka að hugsa um börnin okkar. Við eigum til að mynda átta ára dóttur sem þekkir fátt annað en einsleitt íslenskt umhverfi. Við viljum veita henni eins mörg tækifæri til að kynnast heiminum og mögulegt er. Sjá hlutina með ólíkum gleraugum og hjálpa henni að tileinka sér umburðarlyndi, manngæsku og víðsýni. Það eru eiginleikar sem við vonum að hún tileinki sér. Þetta er ein leið. Að fá eldri systur inn á heimilið í 10 mánuði. Systur sem lítur öðruvísi út, talar annað móðurmál, sér hlutina öðruvísi og kemur úr ólíku umhverfi.

Það hjálpar líka að ég þekki til starfsemi AFS. Ég veit hvað samtökin standa fyrir og hvað málstaðurinn er mikilvægt innlegg.

Svo hef ég líka sjálfur verið í sporum skiptinemans sem ákveður að skilja allt öryggisnetið eftir heima og henda sér út í algjörlega óþekkta og hyldjúpa menningarlaug. Það er ekki auðvelt. Það krefst ótrúlegs hugrekkis. Ég mun búa að þeirri reynslu alla mína ævi og mig hefur alltaf langað til að veita öðrum einstaklingi sama tækifæri og ég fékk.“

_________________________
Gudmundur Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðabæjar og verðandi fósturpabbi skiptinema

Viltu vita meira um hvað felst í að vera fósturfjölskylda? Kynntu þér málið á AFS.is
~~
#AFSfjölskyldur #FósturfjölskylduvikaAFS #AFSfamily #AFSeffect