Síðastliðinn föstudag tók Tinna Sveinsdóttir, fræðslustjóri AFS á Íslandi, formlega við styrk frá Erasmus+, Ungmennaáætlun Evrópusambandsins, fyrir hönd AFS. Styrkurinn er veittur í gegnum Rannís og voru að þessu sinni 11 félög og stofnanir sem hlutu styrk.

Verkefnið sem hlaut styrk frá okkur er Norræn leiðtogaþjálfun eða Nordic Leadership Development Programme. Undirbúningur fyrir verkefnið er nú þegar í fullum gangi en er það unnið í samvinnu við AFS í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi.

Norræna leiðtogaþjálfunin er verkefni í þremur hlutum. Fyrsti hluti er netnámskeið sem spannar 4 vikur. Þar á eftir hittist hópurinn í Kaupmannahöfn eða Malmö og er á námskeiði yfir helgi. Eftir heimkomu tekur við nokkurra mánaða hluti þar sem þátttakendur eru paraðir saman við mentor sem mun aðstoða við framkvæmd verkefnis í heimabyggð þar sem sjálfboðaliðar geta notað þá nýju hæfni sem þau hafa öðlast.

Sérstök áhersla verður lögð á að veita sjálfboðaliðum af landsbyggðinni sem eru virkir í deildarstarfi tækifæri til að taka þátt í þessu verkefni þar sem færri tækifæri eru oft fyrir þau til að afla sér aukinnar þekkingar innan og utan starfsins. Vonum við að þetta muni styðja við uppbyggingu deilda á landsbyggðinni sem og að styrkja sjálfboðaliðastarfið um allt land.

Val á sjálfboðliðum í verkefnið fer fram í nóvember og munum við deila upplýsingum um það á Workplace þegar þar að kemur. Ef þú ert sjálfboðaliði og ekki á Workplace ennþá máttu hafa samband við Tinnu ([email protected])

 AFS hefur hlotið styrki frá Erasmus+ undanfarn ár bæði fyrir ungmennaskiptum sjálfboðaliða (Chapter Exchange) sem og til að taka á móti sjálfboðaliðum í starfsnám í gegnum European Voluntary Service (sem nú heitir European Solidarity Corps). Við erum ákaflega þakklát fyrir þennan stuðning sem gerir okkur kleift að styrkja starf okkar og búa til fleiri tækifæri fyrir sjálfboðaliða okkar sem síðan láta gott af sér leiða út í samfélagið með ýmsum hætti.

Við hlökkum til að segja ykkur meira frá þessu verkefni þegar nær dregur!

 

 

 

Texti: Tinna Sveinsdóttir

Myndir: Rannís