Fimm sjálfboðaliðar AFS á Íslandi taka þátt í Norrrænni Leiðtogaþjálfun sem er samvinnuverkefni AFS á Norðurlöndunum. Verkefnið var styrkt af Erasmus+ eins og við höfum áður sagt frá. Verkefnið byrjaði í janúar og stendur fram í ágúst.

Í janúar og byrjun febrúar tóku sjálfboðaliðarnir þátt í net-námskeiði þar sem farið var yfir ýmist efni tengt leiðtogahæfni og sjálfsskoðun ásamt því að tækifæri var fyrir sjálfboðaliðanna að kynnast sín á milli á fundi sem haldinn var í gegnum netið.

Dagana 7.-9. febrúar hittist allur hópurinn á námskeið í Höllviken í Svíþjóð. Þar voru komnir saman tæplega 30 sjálfboðaliðar og starfsfólk AFS á Norðurlöndunum. Námskeiðið er annar hlutinn af Leiðtogaþjálfuninni en þriðju hlutinn er svo sex mánaða eftirfylgni með mentor þar sem hver sjálfboðaliði vinnur að eigin verkefni. 

Á þessu þriggja daga námskeiði í Höllviken öðluðust þáttakendur dýpri skilning á því efni sem farið var yfir á netnámskeiðinu sem og kynntust hvort öðru betur. Markmiðið með námskeiðinu var að gefa sjálfboðaliðum þau tæki og tól sem þau þurfa til að styrkja starfið í sínum samtökum. Sérstök áhersla var á að undirbúa sjálfboðaliða til að vinna að verkefni með sjálfboðaliðum í sinni deild þegar heim er komið. 

Við hlökkum til að leyfa ykkur að fylgjast með þeim verkefnum sem fara af stað á næstu mánuðum.