Umsóknarfrestir að renna út 

Fyrstu umsóknarfrestir í skiptinám haustið 2020 eru að renna út og hvetjum við þau sem ákveðin eru að fara í skiptinám nú í ár að drífa í að senda inn frumumsókn til að tryggja sér pláss.

Næstu umsóknarfrestir eru:

  • 15. febrúar: Austurríki, Síle, Þýskaland
  • 17. febrúar: Bandaríkin
  • 19. febrúar: Argentína
  • 29. febrúar: Belgía, Finnland, Malasía, Pólland
  • 4. mars: Spánn

Hægt er að sækja um hér og tekur frumumsókn um 15 mínútur.

Ef þú vilt kynna þér málið nánar hvetjum við þig einnig til að kíkja til okkar á kynningarfund miðvikudaginn 19. febrúar.

Norræn leiðtogaþjálfun í Svíþjóð 

7.-9. febrúar tóku fimm sjálfboðaliðar AFS á Íslandi þátt í norrænni leiðtogaþjálfun í Svíþjóð. Þetta er liður í stærra verkefni sem unnið er með AFS á Norðurlöndunum. Merira um námskeiðið og verkefnið í heild má lesa hér. Námskeiðið í Svíþjóð var styrkt af Erasmus+.

Skólakynningar á Norðurlandi vestra 

Mánudaginn 3. febrúar fór fræðslustjóri AFS í ferð um Norðurland vestra og hélt skólakynningar fyrir nemendur í 8.-10. bekk á Skagaströnd, Blönduósi og Hvammstanga. Þetta er í fyrsta sinn sem skólakynningar fara fram á þessum stöðum en því miður er ekki starfrækt AFS deild á þessum landshluta. 

AFS telur mikilvægt að kynna starfsemi sína og möguleika á skiptinámi fyrir sem flestum. Það er okkur ofarlega í huga að kynna tækifæri innan AFS fyrir sem flestum ungmennum og að búa þannig til sem jöfnust tækifæri sem ekki byggja á búsetu.

Það eru þó vissulega ennþá margir skólar sem við höfum ekki náð til. Ef þig langar að fá kynningu í þinn skóla eða langar að halda kynningu í þínum skóla máttu endilega hafa samband við Tinnu ([email protected])

Hæsta styrkveiting Hollvina AFS hingað til 

Það er sannarlega gaman að segja frá því að Hollvinir AFS hafa úthlutað hæstu styrkveitingu sinni til þessa. Þetta var gert opinbert eftir síðasta stjórnarfund Hollvina. Meira má lesa í þessum pistli sem Erlendur Magnússon, formaður Hollvina, skrifaði og við birtum fyrr í vikunni. 

Staða fósturfjölskylduöflunar 

Nú hafa borist okkur 19 umsóknir frá skiptinemum. Af þeim eru 17 umsóknir fyrir ársdvöl og tvær umsóknir í þriggja mánaða dvöl. Von er um 15 umsóknum til viðbótar áður en lokafrestur umsókna lýkur 1. mars. 

Fyrsta fósturfjölskyldan er staðfest og því má með sanni segja að fósturfjölskylduöflunin hafi farið vel af stað. Nú hvetjum við alla til að deila öllum fréttum og lýsingum af nemum svo við getum náð til sem flestra og vonandi komið fleiri nemum til fjölskyldna áður en febrúar lýkur. Við munum fljótlega pósta nýju nemunum á Facebook en hér má finna lýsingar af þeim nemum sem komnir eru inn á heimasíðu AFS: https://www.afs.is/fosturfjolskyldur/skiptinemar-a-islandi-2020/