AFS á Íslandi vekur athygli kennara á ráðstefnu á vegum AFS í Danmörku. Ráðstefnan ber yfirskriftina “Konference om Dialog, Dannelse og Interkulturel Forståelse” og fer hún fram í Kaupmannahöfn þann 13. nóvember. Aðgangur á ráðstefnuna er ókeypis, en þátttakendur þurfa að skrá þátttöku sína fyrir 23. október. Ráðstefnan fer fram á dönsku.

Þar verður fjallað um hvernig hægt er að móta og þróa samtal án fordóma, og menningarlegan skilning meðal barna og unglinga. Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar er Özlem Cekic, en hún hefur mikla reynslu af því að byggja brýr og fjallar meðal annars um mikilvægi þess að gefa fólki rými til að vera sammála um að vera ósammála. Einnig mun Birthe Lund frá Álaborgarháskóla fjalla um það hvernig skólinn getur verið umgjörð fyrir samtal, og hvernig skólinn getur unnið að því að virkja börn og ungmenni í að móta þátttökumiðað lýðræðissamfélag.

Í boði verður að taka þátt í tveimur spennandi vinnustofum, þar sem kenndar verða markvissar æfingar sem þú getur notað í kennslustofunni þegar heim er komið.

Ráðstefnan er ætluð kennurum í grunnskóla, sérstaklega kennurum í tungumálum, samfélagsgreinum og sögu. Hún er haldin í samstarfi við deild kennslufræða í Københavns Professionshøjskole.

Af hverju er menningarfærni mikilvæg fyrir kennara?
Karen Lassen Bruntt, lektor í enskukennslu við VIA University College í Árósum hafði þetta að segja eftir sömu ráðstefnu í fyrra:
“Tungumálakennarar hafa þörf á að vera meðvitaðir um eigin menningarfærni til að geta aðstoðað nemendur sína við að þróa sína eigin færni, svo þeir geti aðlagað sig að alþjóðavæddum heimi.”

Allar frekari upplýsingar um ráðstefnuna má finna á https://www.afs.dk/konference/.
Fyrirspurnir má senda á [email protected].