Tékkland er rómað fyrir að vera sérlega vinveitt rithöfundum, listamönnum og bóhemalífsstíl. Rétt fyrir utan hina sögufrægu höfuðborg, Prag, breiða sveitahéröðin úr sér, full af bóndabæjum, skógum, smáþorpum og kastölum. Fallegir fjallgarðar, ár, vínekrur og akurlendi, með borgum og þorpum, sem eru eins og beint úr ævintýrabókunum, gera ferðalag um landið að einstakri upplifun ólíkra menningarheima og könnun á eigin sjálfi.

Tékknesk ungmenni eyða einna helst frístundunum utan dyra. Þau fara í fjallgöngur, hjólreiðaferðir og sund að sumri til og skella sér á skíði á veturna. Þú ættir endilega að ganga í einhvern klúbbanna sem krakkarnir sækja eftir skóla, þar sem þau stunda ýmist íþróttir, leiklist eða tölvunarfræði. Tékknesk ungmenni eru félagslynd og njóta þess að skemmta sér saman.

 

A photo posted by RestyN17 (@restyn17) on

Fólk og samfélag

Tékkar eru almennt taldir vera vinalegir og hægverskir. Þeir kunna að meta hreinskiptin samskipti og fara ekki í kringum hlutina. Fólk heilsar og kveður oft aðra sem það þekkir ekki, t.d. í litlum búðum, lyftum eða lestum. Hér eins og á Íslandi er mikilvægt að fara úr skónum áður en þú kemur inn á tékkneskt heimili.

Fósturfjölskyldur

Skiptinemar dvelja oftast hjá fjölskyldum sem búa í minni borgum eða bæjum. Flestar fjölskyldur eiga ekki meira en tvö börn og hafa því gott rými fyrir skiptinema. Fjölskyldur eru oftast nánar og algengt er að amma og afi búi einnig á heimilinu. Alengt er að fjölskyldur fari í sumarhús eða út í sveit um helgar.

Skóli

Flestir skiptinemar fara í opinbera skóla (gymnasium) sem eru áþekkir menntaskólum. Bekkjarkerfi er algengast. Ekki er vaninn að nemar séu í skólabúningum en margir hafa með sér inniskó.

Matur

Tékkar eru mikið fyrir góðan mat og má segja að matargerðin þeirra sé undir þýskum, ungverskum og pólskum áhrifum. Kjöt, kartöflur, hrísgrjón og djúpsteikt fyllt brauð er vinsælt. Flestum réttum fylgir þétt sósa og grænmeti og „sauerkraut“. Þrátt fyrir að það sé rýk hefð fyrir kjöti er grænmetismatarræði að verða algengara.

A photo posted by RestyN17 (@restyn17) on

Tungumál

Tékkneska er töluð í Tékklandi. Margir tala hins vegar einnig ensku, slóvakísku, pólsku, þýsku eða rússnesku. Grunnkunnátta í ensku kemur skiptinemum vel og hjálpar við að læra tékkneskuna. AFS í Tékklandi skipuleggur tungumálanámskeið fyrir skiptinemana fyrstu mánuðina eða útvega nemunum námsefni fyrir brottför.

Skoða skiptinám í Tékkland