16. Janúar síðastliðinn héldu sjálfboðaliðar AFS hátíðlega árshátíð og var gaman að sjá mörg ný andlit. Þemað var suður-amerískt/spænskt í þetta skiptið þar sem suðræn matarmenning var allsráðandi og fengu gestir meðal annars heimagerða churros í eftirrétt. Árshátíðarnefnd hóf skipulagningu snemma í desember og vann hörðum höndum að bestu árshátíð AFS hingað til (n.b. greinarhöfundur gæti verið óhlutlaus).

Árshátíðarmyndband var sýnt með mögnuðum leiktilþrifum sem gefur til kynna að það sé eftirspurn eftir leiklistarklúbbi AFS sem allra fyrst. Dregið var úr lukkupotti AFS en hann er framtak umsjónarmanna viðtala og skólakynninga í stjórn Reykjavíkurdeildar þar sem sjálfboðaliðar fá nafn í pottinn í hvert sinn sem þeir taka viðtal eða skólakynningu. Verðlaunin voru ekki af verri taginu og þökkum við Bogfimisetrinu, Dominos, Hallgrímskirkjuturni, Horninu, Hraðlestinni, Hvalasafninu, Hvalaskoðun Eldingar, Icelandic Lava Show, Into The Glacier, Into The Volcano, Íslenska Barnum, Klifurhúsinu og Laugar Spa fyrir frábæra vinninga.Eftir að formlegri dagskrá lauk tók við karaoke þar sem hugaðir sjálfboðaliðar þöndu raddböndin langt fram á nótt.

Fyrir hönd árshátíðarnefndar þakka ég öllum fyrir frábæra árshátíð og get ekki beðið eftir þeirri næstu.

Úlfur Atli Stefaníuson,
Formaður Reykjavíkurdeildar AFS