Í janúar 2019 tók AFS á Íslandi í fyrsta skipti á móti skiptinema á þessum árstíma.  Það var hann Ethan frá Malasíu sem kom hingað til landsins í byrjun janúar í gegnum PEACE prógrammið, sem er nýtt samstarfsverkefni á milli Evrópu og Asíu.  Þetta er þriggja mánaða skiptinám ekki ósvipað ECTP Evrópu prógramminu sem við höfum tekið þátt í undanfarin ár.

Þar sem Ethan var eini neminn sem mætti til Íslands á þessum tíma var ekki búið að skipuleggja neitt komunámskeið fyrir hann eins og allir hinir nemarnir fá þegar þeir mæta til landsins á haustin.  Ethan fékk fjölskyldu í Stykkishólmi og er því hluti af Vesturlandsdeild, sem var ánægjulegt þar sem deildin hýsti engan nema síðasta skólaár en fékk nokkra nema í vetur, á mismunandi tímum.

Því var brugðið á það ráð að hafa samband við undirritaða, formann Vesturlandsdeildar, til að halda svona „Mini Arrival Camp“ fyrir Ethan.  Úr varð að ég hélt smá námskeið heima hjá mér í Búðardal þar sem fyrir hafði verið planað að fá nokkra núverandi og fyrrverandi skiptinema í heimsókn helgina 25.-27. janúar til að fá að kynnast því hvernig íslendingar blóta þorrann.  Kira, sem var skiptinemi á Íslandi árið á undan, kom ásamt þeim Elísu í Búðardal og Fritzi á Reykhólum sem eru skiptinemar þetta árið.

Byrjað var á að elda alþjóðlega máltíð á föstudagskvöldið þar sem Ethan gerði núðlurétt, Char Kway Teow, frá Malasíu, Elísa töfraði fram ítalska pizzu, Fritzi skellti í rösti kartöflur frá Sviss og Kira kætti bragðlaukana okkar með ekta belgískum súkkulaði búðing, Mousse.  Íslenski maturinn var svo á dagskrá hjá öllum á þorrablóti kvöldið eftir.

Eftir kvöldmat settumst við öll saman og hófum komunámskeiðsfræðslu.  Þetta var með mjög svo óformlegum hætti þar sem tæknilega séð var þarna um að ræða 4 sjálfboðaliða á einn skiptinema svo það var heldur betur þjónustan og fengu reynslu sögurnar að njóta sín í allri sinni mynd frá fjórum kvenmönnum að kenna einum karlmanni…. talandi um kvenréttindabaráttuandann á Íslandi

Þetta var allt mjög svo skemmtilegt og höfðu allir mikið að segja, svo mikið að við nánast töluðum strákgreyið í svefn. Á laugardeginum fórum við svo öll saman í bíltúr til að skutla Ethan heim í Stykkishólm, þar sem hann var að fara á þorrablót með fjölskyldunni sinni þar um kvöldið.  Í bílnum á leiðinni kláruðum við að fara yfir efnið þar sem við náðum ekki að klára kvöldið áður.

Þetta var „intensive“, ef svo má segja, komunámskeið en mjög svo skemmtilegt og alveg þess virði að skella í svona aftur ef við erum að taka á móti nemum á óhefðbundnum komutímum.

Texti og myndir: Jónína Kristín Guðmundsdóttir, Formaður Vesturlandsdeildar