Öllum nemum snúið heim 

Eins og tilkynnt hefur verið tóku alþjóðasamtök AFS þá erfiðu ákvörðun að öllum AFS skiptinemum skyldi snúið heim í hendur fjölskyldna sinna í ljósi hraðrar útbreiðslu COVID-19 og áhrifa faraldursins á heimsbyggðina.

Þetta hefur reynst nokkuð snúið með aukinni dreifingu veirunnar, lokun landamæra, fækkandi flugframboði og hertum reglum stjórnvalda. Almennt hefur heimkoma AFS skiptinema þó gengið vel, þrátt fyrir fjöldan allan af aflýstum flugum og breyttum ferðaplönum, og erum við virkilega stolt af unga fólkinu okkar sem hafa staðið sig eins og hetjur í þessum erfiðu aðstæðum. 

Í dag eru 94% íslenskra AFS skiptinema komin heim í faðm fjölskyldunnar, sem og 70% erlendra AFS skiptinema á Íslandi, en 20% til viðbótar munu ferðast yfir helgina. Verið er að vinna hörðum höndum í að koma öllum heim, en þar sem ferðalag er ekki talið öruggt eða yfir höfuð mögulegt halda skiptinemar áfram dvöl í skjóli fósturfjölskyldu sinnar þar til öruggt er að snúa heim á leið.

Mikilvægt er þó að nema ekki staðar við lok ferðalagsins og þykir okkur hjá AFS mikilvægt að þessir nemar fái að halda námi sínu hjá AFS áfram eftir heimkomuna, þó með öðru sniði. Í ljósi aðstæðna hefur AFS þurft að grípa til nýstárlegra leiða og hefur fræðslustjóri átt góða heimkomufundi með nýheimkomnum nemum í gegnum netið. Hver nemi mætir á tvo fundi þar sem farið er yfir stöðu mála, kannað hvaða stuðning þau þurfa á að halda og rætt um sóttkvína sem þau eru flest í. Til að halda áfram þeirri alþjóðlegu fræðslu sem skiptinámið er nú þegar heim er komið mun nemunum standa til boða að taka þátt í Global Competence Certificate námskeiði sem byggt er á samnefndu námskeiði sem Alþjóðasamtök AFS hefur unnið með og þróar í dágóðan tíma og hefur verið kennt í nokkrum háskólum í BNA við góðar undirtektir. Þetta námskeið hefur nú verið útfært sérstaklega fyrir nákvæmlega þennan hóp nema. Fræðslustjóri mun halda utan um þetta nám á næstu vikum og mánuðum. Þegar aðstæður leyfa hlökkum við svo mikið til að bjóða þeim á heimkomunámskeið í raunheimum.

Hvert er framhaldið? 

Þrátt fyrir að við séum í þeirri stöðu í dag að þurfa að senda erlenda skiptinema fyrr heim á meðan COVID-19 gengur yfir þá verðum við samt að undirbúa okkur fyrir komu erlendra skiptinema núna í haust. Það er mikilvægt að halda áfram leit af fósturfjölskyldum fyrir nemana sem koma til okkar í ágúst. Við erum nú þegar komin með nokkrar fjölskyldur en vantar ennþá fullt af góðu fólki til hýsa. Ef þú hefur áhuga ekki hika við að hafa samband, sem og að skoða nemana okkar sem enn leita af fjölskyldum á heimsíðu AFS: https://www.afs.is/fosturfjolskyldur/skiptinemar-a-islandi-2020/

Undirbúningur fyrir brottför íslenskra skiptinema í dvöl erlendis heldur jafnframt áfram. Það er auðvitað snúið að sjá fyrir um hvernig heimsmálin munu þróast á næstu mánuðum og er áfalla-og krísuteymi okkar hjá alþjóðasamtökunum að fylgjast vel með, en þau í samvinnu við hvert land fyrir sig metur stöðuna á hverjum stað fyrir sigi. Þar til sú mynd skýrist betur höldum við áfram að vinna í umsóknum þeirra sem þegar eru í umsóknarferli og hvetjum þau sem hafa áhuga á að sækja um að hafa samband við [email protected]

Breytt fyrirkomulag skrifstofu 

Við hjá AFS viljum sýna ábyrgð í ljósi aðstæðna og þess vegna verður starfsemi á skrifstofu AFS með öðru sniði nú í apríl en í venjulegu árferði. Starfsmenn munu vinna meira heiman frá og þess vegna biðjum við sjálfboðaliða sem og alla áhugasama að hafa samband við okkur í gegnum tölvupóst. Ekki verður hægt að kíkja við á skrifstofunni á hefðbundnum opnunartíma í apríl. Einnig verður settur upp símsvari á símatíma.