Velkomin Jenný

Hæ allir! Ég heiti Jenný og verð hér á skrifstofunni í sumar. Ég hef í gegnum árið borið mismunandi AFS hatta og kann ýmislegt. Ég hef lengi verið sjálfboðaliði, setið í aðalstjórn og áður unnið á tveimur AFS skrifstofum, hér á Íslandi og hjá EFIL, regnhlífarsamtökum AFS í Evrópu.Í sumar mun ég sjá um áritunarmál, flugpantanir og sjálfboðaliðastarf. 

Ég hlakka auðvitað mikið til, enda AFSari alveg í gegn!

 

Undó

Undirbúningsnámskeiðið er einn af hornsteinum AFS skiptinámsins. Þar fá væntanlegir skiptinemar fræðslu í menningarlæsi og mikilvægan undirbúning fyrir skiptinámsdvölina auk samhristings og kynningu á væntanlegum hýsingarlöndum.

Að þessu sinni voru 20 nemar samankomnir sem eru að fara til þrettán ólíkra landa á vetrarbrottför 2021. 

Dagskrá helgarinnar var þétt og aðkoma sjálfboðaliða okkar afar dýrmæt.
Við á skrifstofunni kunnum þeim okkar bestu þakkir. 

Stjórn

Stjórn hélt vinnufund laugardaginn 5. júní þar sem að rætt var um starf, þróun og þjálfun sjálfboðaliða í gegnum verkefni sem kallast “þróun sjálfboðaliðans” (e. Volunteer Journey).

Útkoma fundar var annars vegar áætlun um að koma sjálfboðaliðum saman á svokölluðu AFS hittingi og svo að safna saman upplýsingum um þarfir sjálfboðaliða svo að AFS geti boðið upp á nútímavætt og betra starf.

Stjórnin er spennt og vongóð yfir framtíðinni og hlakkar mikið til að sjá gamla sem og nýja sjálfboðaliða og AFSara á komandi AFS hittingi, 1 júlí 2021. Sjáumst þá!

 

Fósturfjölskylduöflun

Við leitum nú að fósturfjölskyldum fyrir 12 nemar sem eftir eiga að fá fjölskyldu.  Nemarnir koma til landsins 20. ágúst. Við yrðum afar þakklát ef þú gætir aðstoðað okkur við þetta verkefni og biðjum alla sjálfboðaliða að vekja athygli á erlendu nemunum á samfélagsmiðlum.

 

Lokanámskeið – End of Stay

Seinustu helgi 12.-13. júní var haldið lokanámskeið fyrir erlenda nema á Íslandi. Námskeiðið fór fram á skrifstofu AFS. Þátttakendur voru 11 talsins, sem eru töluvert færri en í venjulegu árferði. Nemarnir voru 17 til að byrja með, nokkrir voru á styttri prógrömmum og einhverjir fóru fyrr heim. Sjálfboðaliðar AFS stóðu fyrir skemmtilegri dagskrá þar sem farið var í ýmsa leiki og í sund. Á lokanámskeiði AFS er einnig farið yfir ýmis atriðið er snýr að því að aðlagast heimahögum eftir viðburðaríka reynslu og verða aftur hluti af samfélaginu heima. 

Fjórir nemar áttu flug mjög seint á sunnudagskvöld og sáu sjálfboðaliðar til þess að nemarnir ættu skemmtilegan dag og skunduðu um Reykjavík. Námskeiðið heppnaðist afar vel þökk sé sjálfboðaliðum AFS fyrir gott skipulag og utanumhald. Við erum afar stolt af sjálfboðaliðum okkar og fá þau innilegar ÞAKKIR fyrir óeigingjarnt starf

 

Starfsdagur skrifstofu

Starfsfólk AFS á Íslandi eftir vel heppnaðan starfsdag (Jenný, Kristín, EvaHlín, Natálie, Solveig, Thomas).