Lokaráðstefna hýstra nema – End of Stay

Þann 12. júní verður lokaráðstefna haldin fyrir þá 14 erlendu nema sem eru á heimleið eftir ársdvöl í skiptinemaprógrammi hér á Íslandi. Við erum afar þakklát fósturfjölskyldum okkar þetta blessaða Covid ár og vitum að það hefði aldrei verið hægt að bjóða þessum skiptinemum að koma hefði það ekki verið fyrir okkur ótrúlega fósturfjölskyldur. Nemarnir eiga að koma á upp á skrifstofu að hádegi 12. júní og taka þátt í kveðjuathöfn með þeim fjölskyldum sem geta komið með nemunum. Síðan kveðja nemarnir fjölskyldur sína og formleg dagskrá byrjar sem lýkur með heimför flestra nema 13. júní. 

Einhverjir nemar þurftu að láta breyta heimfluginu vegna aflýstra fluga og fer því um helmingur hópsins heim mánudaginn 14. júní. Við viljum því óska eftir sjálfboðaliðum til að fara með þennan hóp að skoða eldfjallið okkar góða og gera eitthvað annað skemmtilegt sem ykkur dettur í hug. Það þurfa ekki sömu sjálfboðaliðarnir að vera á lokaráðstefnunni og á sunnudeginum. Sunnudagurinn 13. júní verður meira skemmtiferð og hangs ?

Okkur vantar sjálfboðaliða til að stýra og aðstoða á lokaráðstefnunni og hvetjum við hvern þann sem áhuga hefur að láta Natálie vita af sér. Þessi ráðstefna er bæði skemmtileg en líka tregabundin og því mikilvægt að vera vel mönnuð 🙂 Einnig hafið samband ef þið viljið aðstoða okkur á sunnudeginum 13. júní. Í boði er að taka þátt á báðum dögunum eða öðrum þeirra. Sendið Natalie póst á netfangið hennar: [email protected] ?

Staða fósturfjölskylduöflunar

Í ágúst eigum við von á 26 nemum sem koma frá ýmsum löndun. Við munum hýsa fimm nema á þriggja mánaða prógrammi og svo 21 nema á ársprógramminu okkar. Við erum komin með rétt um 10 fjölskyldur og þurfum því að spýta í lófana og finna fleiri fjölskyldur. Það má samt ekki líta framhjá því við erum komin með heimili fyrir 10 nema og við erum afar glöð og þakklát þeim sem hafa tekið af skarið og ákveðið að hýsa þrátt fyrir óvissunar sem Covid veldur. 

Það hefur reynst mikil aðstoð í því að fá velunnara AFS á Íslandi til að líka við og deila lýsingum af þeim nemum sem við höfum póstað á Facebook og Instagram síðunum okkar. Hægt er að sjá þessar lýsingar hér á Facebooki: https://www.facebook.com/skiptinemi og hér á Instagram: https://www.instagram.com/afsiceland/ 

Allar lýsingar af nemum er að finna á heimsíðu AFS, hér: https://www.afs.is/fosturfjolskyldur/skiptinemar-a-islandi-2021/

Ef einhver getur aðstoðað okkur við fósturfjölskyldu öflun þá værum við afar þakklát. Þeir sem telja sig geta aðstoðað geta sent póst á kristin@afs.org eða sent okkur skilaboð á messenger. Það eru fjölbreytt verkefni í boði svo um að gera að sjá hvort einhver þeirra höfði til þín.


Hollvinir AFS

Aðalfundur stjórnar Hollvina AFS fór fram fimmtudaginn 29. apríl s.l.
Í upphafi fundar fór Erlendur Magnússon, formaður stjórnar, yfir ársreikninga sjóðsins. Hann kynnti ennfremur breytingar á skattalögum sem munu koma óhagnaðardrifnum félögum til góða og auka getu sjóðsins til að veita styrki.

Á síðasta starfsári voru veittir sex styrkir að heildarupphæð 3.044.000 kr. en einungis helmingur styrkjanna var greiddur út vegna breytinga á brottför vegna faraldursins. Stjórnin hafði áður samþykkt að þeir nemar sem komust ekki ytra í fyrra megi nýta styrkinn á þessu ári. Það er afar ánægjulegt að þau þrjú ætli öll að nýta sér það og fara ytra í sumar.

Að auki veittu Hollvinir fjóra styrki að heildarupphæð 1.100.000 kr. í byrjun mars til nema sem fara út á sumarbrottför 2021.

Birta Sigþórsdóttir hlaut styrk til skiptinemadvalar frá Hollvinum og fór til Austurríkis 2019. Hún hélt skemmtilegt erindi fyrir fundargesti þar sem hún rakti upplifun sína af skiptinámi á tímum Covid-19. Hún var ein af þeim sem var send heim í skyndi í upphafi alþjóðafaraldursins og endaði því dvölin á einkennilegan hátt. Birta lýsti líðan sinni og þakklæti yfir viðbrögðum alþjóðasamtakanna og starfsmanna íslenska AFS, sem ásamt stjórn lögðust á eitt til að koma krökkunum okkar heim í skjól. Hún var fegin að komast heim þó að það væri skýtið að ná ekki að kveðja almenninlega og klára dvalartímann. 

Birta sýndi líka myndband þar sem hún dró saman reynsluna á líflegan hátt og segist hlakka til að fara aftur út til Austurríkis og heimsækja fósturfjölskylduna sína og vini.

Einnig var kosið til stjórnar Hollvina AFS á aðalfundinum og hlaut Guðrún Björk Bjarnadóttir kjör til áframhaldandi setu í stjórn Hollvina sem fulltrúi stjórnar AFS.
Þorvarður Gunnarsson var einnig kosinn til áframhaldandi setu í stjórninni, til næstu tveggja ára ásamt Guðrúnu Björk.
Erlendur hefur lokið fyrra ári af tveggja ára kjörtímabili og situr því stjórn áfram óbreytt til næsta aðalfundar.
Anna Kristín Traustadóttir hjá Ernst & Young á Íslandi var kjörin endurskoðandi stofnunarinnar. 

Aðalfundur EFIL

Kæru AFS félagar. Sólveig Ása framkvæmdastjóri og ég sátum aðalfund EFIL 15. maí sl.  EFIL er samtök AFS félaga í Evrópu (European Federation for Intercultural Learning) og eru meðal annars mjög mikilvæg sem málsvari okkar innan stjórnkerfis Evrópu til að ryðja veginn fyrir ungmennaskipti og sjálfboðaliðastarf ásamt því að auka gildi menningarlæsis innan menntakerfisins og svo lengi má telja.

Aðalfundurinn er sá fyrsti sem ég sótti og opnaði augu mín enn frekar fyrir mikilvægi EFIL og metnaði samtakanna að vera í forystu á þessum vettvangi. 

Fundurinn var haldinn í netheimum vegna skiljanlegra aðstæðna og fjallaði mikið um hvernig EFIL hefur þurft að bregðast við síðasta árið með niðurskurði og hugsa hlutina upp á nýtt sem ég er sannfærður um að muni nýtast okkur með einfaldari ferlum og styttri boðleiðum.  En það skein í gegn hjá öllum viðstöddum að almenn bjartsýni um að betri tímar séu framundan og lífið geti farið í eðlilegri skorður á næstu mánuðum. 

Í framtíðinni munu koma frekari fræðslu- og upplýsingamolar um starf og viðburði EFIL svo þú getir fengið þína innsýn í hvað þessi samtök snúast um.
– Gunnar Einarsson

Til að fræðast frekar er hægt að skoða: https://efil.afs.org/ 

Góða helgi!