Sælir kæru AFSarar!

Ég heiti Steinunn og hef nýverið hafið störf hjá AFS á Íslandi sem verkefnastjóri fræðslu- og skólamála. Mig langar að kynna mig aðeins fyrir þau sem ekki þekkja mig og einnig segja örlítið frá þessu nýja og spennandi starfi sem ég var að taka við.

AFS ævintýrið mitt byrjaði þegar ég var 17 ára og fór í skiptinám með AFS til Nýja Sjálands árið 2012. Þetta ár hafði mikil áhrif á líf mitt – meiri en mig hefði getað órað fyrir! Ég eignaðist ekki eingöngu marga vini frá fjölmörgum löndum, fjölskyldu sem er eins og mín eigin og ótal góðar minningar heldur opnaði það einnig dyrnar fyrir mig að því frábæra samfélagi sem AFS heimurinn er og gaf mér ástríðuna fyrir að vinna að betri heimi.

Eftir skiptinámið fór boltinn að rúlla og hef ég verið virkur sjálfboðaliði hjá AFS frá því stuttu eftir að ég kom heim. Ég hef stokkið í hin ýmsu hlutverk sem sjálfboðaliði, sat meðal annars í stjórn Reykjavíkurdeildar í þrjú ár, hef skipulagt viðburði og námskeið og þjálfað á námskeiðum bæði hérlendis og erlendis. Ég hef eldað mat, hellt upp á kaffi, haldið partý, tekið tugi viðtala og skólakynninga og þar fram eftir götunum. Undanfarið hefur mín helsta áhersla innan samtakanna verið á ýmiss konar þjálfanir tengdar menningarlæsi. Til að mynda þjálfaði ég nema á ECTP lokadvöl í Belgíu í desember 2017, sjálfboðaliða á Volunteer Summer Summit í Noregi í júlí 2018 og sá um Level W þjálfun ásamt Aroni Frey og litla smiðju á aðalfundi samtakanna síðastliðið haust.

Síðustu mánuði hef ég búið á Flateyri þar sem ég stundaði nám við lýðháskóla sem var mjög dýrmæt reynsla þar sem ég lærði að hugsa út fyrir kassann, prófa mig áfram í alls konar skapandi greinum auk þess sem ég öðlaðist nýja sýn á mikilvægi fjölbreytileika í menntun. Ég er ekki bara útskrifaður Lýðflatingur heldur einnig stjórnmálafræðingur frá HÍ, fyrrum mannauðsfulltrúi, landvörður, leikskóla- og frístundaleiðbeinandi og ýmislegt fleira. Nú er ég hins vegar flutt aftur til Reykjavíkur eftir yndislegan vetur fyrir vestan, en í sumar hef ég fengið það frábæra tækifæri að fá að sinna AFS ástríðunni í fullu starfi, sem er virkilega spennandi!

Fyrir þá sem ekki vita er eitt af markmiðum AFS fyrir þróun samtakanna næstu árin að efla markvisst tengsl samtakanna við skóla og menntayfirvöld og koma þar með fræðslu um menningarlæsi víðar út í samfélagið. Ég hef fengið það spennandi hlutverk að ýta þessari vinnu af stað, sem verkefnastjóri fræðslu- og skólamála. Markmiðin með mínu starfi eru m.a. að styrkja sambönd AFS við skóla, opinbera aðila og önnur félagasamtök, styrkja þannig stöðu AFS sem mennta- og fræðslusamtök út á við, bjóða upp á tækifæri í menningarlæsi fyrir aðila utan AFS og gera fræðsluefni um menningarlæsi aðgengilegra. Auk þessa sinni ég afleysingum annarra starfsmanna á meðan sumarfríum stendur.

Ég tel að ótalmörg tækifæri séu fólgin í þessu starfi, enda hef ég lengi óskað þess að sjá AFS teygja sig víðar út úr þessari frægu “búbblu” okkar. Ég er bæði glöð og þakklát að fá að leggja mitt af mörkum hvað þetta varðar og tel ég mikið fagnaðarefni að þetta sé komið inn á dagskrá samtakanna með markvissari hætti en áður. Við sem samtök höfum nefnilega svo margt fram að færa; þekkingu, aðferðir og efni sem nýtist ekki eingöngu skiptinemum, fósturfjölskyldum og sjálfboðaliðum, heldur er það einnig mjög gagnlegt við að móta þá menningarlegu hæfni sem hefur vaxandi mikilvægi í síbreytilegu samfélagi nútímans.

Það er mér því mikill heiður að fá að sinna því í sumar að teygja anga okkar víðar og leggja mitt á vogarskálarnar til að móta stefnu samtakanna í fræðslumálum til framtíðar. Sjáumst á skrifstofunni í sumar!

____________________
Steinunn Ása Sigurðardóttir, verkefnastjóri fræðslu- og skólamála.