Skiptinemar á leið til Íslandis í ágúst

Í ágúst tekur AFS á Íslandi á móti rúmlega 30 skiptinemum frá mismunandi löndum. Umsóknir eru byrjaðar að berast og það er virkilega gaman fyrir okkur að geta nú þegar deilt með ykkur upplýsingum um tæplega einn þriðja af þeim nemunum sem eru væntanlegir. Hér má hitta nemana frá Frakklandi, Sviss, Tælandi, Þýskalandi, Austurríki og Finnlandi.

Við hetjum ykkur til að skoða nemana og einnig deila lýsingunum með fólki sem þið haldið að hafi áhuga á að hýsa skiptinema. Fósturfjölskylduöflunin gengur best þegar við byrjum snemma og vinnum saman. Allar upplýsingar um það að hýsa nema má sjá hér. Einnig hvetjum við ykkur til að hafa samband við Kristínu á skrifstofunni ([email protected]) ef þið viljið frekari upplýsingar.

Alþjóðleg rannsókn á áhrifum AFS skiptináms

Fyrir rúmri viku deildum við frétt um alþjóðlega könnun sem gerð var meðal fyrrum skiptinema AFS. Áhugaverðar niðurstöður fundust og við hvetjum ykkur til að skoða uppfærða frétt hér.

Auka-kynningarfundur á skrifstofu AFS

Haldnir hafa verið mánaðarlegir kynningarfundir nú í vetur til að kynna skiptinám, sjálfboðaliðastarf og aðra starfsemi AFS á Íslandi. Vegna góðrar mætingar á kynningarfund í miðjum mánuði og vegna mikillar eftirspurnar var ákvörðun tekin um að halda auka-kynningarfund þriðjudaginn 28. janúar.

Mæting var býsna góð og gaman var að taka á móti flottum hóp ungmenna að kynna sér skiptinám með AFS. Sjálfboðaliðar og starfsfólk stóðu vaktina og fá þeir sjálfboðaliðar sem tóku þátt mikið hrós fyrir skemmtilega og fræðandi kynningu!

Sérstök áhersla var lögð á að kynna námsstyrki Hollvina AFS þar sem umsóknarfrestur um styrk í skiptinám rennur út 1. febrúar. Hægt er að kynna sér þessi tækifæri á heimasíðu okkar og í þessari færslu.

Næsti kynningarfundur verður haldinn miðvikudaginn 19. febrúar.

Sjálfboðaliðastarfið

Eins og alltaf þá er heilmikið um að vera hjá sjálfboðaliðum AFS enda bera þau þungann af öllu starfi samtakanna. Um þessar mundir er sérstaklega mikið að gera í skólakynningum og viðtölum en mikið af umsóknum hafa borist undanfarnar vikur. Þetta eru skemmtileg verkefni þar sem sjálfboðaliðar fá tækifæri til að segja frá sinni reynslu af skiptináminu og hitta verðandi skiptinema.

Reykjavíkurdeildin er einnig að undirbúa árshátíð sjálfboðaliða sem haldin verður í febrúar og Norðurlandsdeildin undirbýr Akureyrar helgina sem er árlegur viðburður fyrir erlenda nema hér á landi.

Langar þig að taka þátt í sjálfboðaliðastarfi AFS? Sendu línu á [email protected] eða skráðu þig hér.

Vinnufundur stjórnar AFS

Fyrsti vinnufundur stjórnar AFS var haldinn 18. janúar. Um hann má lesa í þessari blogg færslu sem við deildum fyrr í mánuðinum.